Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýnir að styrkjakerfið, sem tekið verður upp verði LÍN-frumvarpið svonefnda að lögum, sé tekjutengt. „Þeir sem koma úr starfi og ætla í nám fá lægri styrk,“ sagði Björt í umræðum um dagskrá þingsins á Alþingi sem hófust klukkan þrjú síðdegis. „Eins verður mikil skerðing á styrknum ef þú ætlar að vinna með skóla.“
Þá sagði Björt það mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis færi í saumana á frumvarpinu. Nefndi hún þ.á.m. hvernig lán skuli greidd til baka. Benti hún á að með því að afnema tekjutengingu af afborgun lána þurfi konur að greiða hærri hluta ráðstöfunartekna sinna sökum launamisréttis kynjanna á vinnumarkaði.