Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík þann 3. september nk.
Í tilkynningu sem send var fjölmiðlum vegna framboðsins segir að Jón Ragnar hafi eingöngu unnið við líkamlega erfiðisvinnu í 35 ár, mest á sjó. Hann hefur verið háseti á Ásbirni RE 50 síðastliðin átta ár.
Þá segir einnig að Jón Ragnar hafi alist upp í neðra Breiðholti, í framkvæmdanefndarflokk og lifað við hefðbundin kjör íslenskrar verkamannastéttar. „Styrkur Jóns Ragnars er að hann hefur alla tíð unnið erfiðisvinnu til sjós og lands - þekkir hvað það er að þurfa eingöngu að treysta á sjálfan sig,“ segir í tilkynningu.
Jón Ragnar hefur verið virkur í grasrótarstarfi Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstöfum fyrir flokkinn, líkt og segir í tilkynningunni.
„Jón Ragnar mun leggja höfuðáherslu á málefni aldraðra því þau hafa setið á hakanum árum saman. Það er nauðsynlegt að eldri borgarar fái verðskuldaða viðurkenningu fyrir sín störf og eigi möguleika á að eiga áhyggjulaust ævikvöld.
Það er algerlega óásættanlegt að fólki sé refsað fyrir að verða sjötugt - en það er því miður staðreynd. Allir mannréttindasáttmálar vesturlanda banna mismunun á grundvelli litarháttar, kynferðis, kynhneigðar og kynvitundar auk þess sem ekki má láta fólk gjalda þjóðernis, trúar eða stjórnmálaskoðana.
Svo er það viðurkennt af stjórnvöldum að heilbrigt fólk á þessu ári skuli gjalda fyrir að hafa fæðst árið 1946 - þessu er mikilvægt að breyta viljum við kallast siðmenntuð þjóð. Jón Ragnar er maður sem veit hvað hann vill og mun berjast af alefli fyrir sínum hugsjónum,“ segir í tilkynningu.