Vill engan „skítablett“ á ferlinum

Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi.
Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi. mbl.is/Árni Sæberg

Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi, ætlar að stefna Bubba Morthens og Ríkisútvarpinu fyrir ærumeiðandi ummæli  og birtingu þeirra.

Ástæðan fyrir því eru ummæli  Bubba í sjónvarpsþættinum Popp- og rokksaga Íslands þar sem hann sakaði Steinar Berg um að hafa sem útgefandi hans brotið á sér er hann starfaði í hljómsveitunum Utangarðsmönnum og Egó á níunda áratugnum. 

Þátturinn var fyrst sýndur á Rúv 13. mars og verður hann endursýndur í kvöld. Hægt er að lesa nánar um hlið Steinars á málinu á síðunni sannleikurmalsins.com. Hann skrifaði einnig aðsenda grein undir titlinum Bubbi, RÚV og sanngirnin sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. 

Stoltur af sínu framlagi 

Aðspurður segir Steinar Berg að ákvörðunin um að stefna Bubba og Rúv hafi að mörgu leyti verið erfið. „Ég bjóst við því að ég gæti bara hrist þetta af mér þegar þetta kom upp en svo var nú ekki. Þetta hefur truflað mig mjög mikið,“ segir Steinar Berg, sem starfar nú sem ferðaþjónustubóndi.

„Ég er að vinna með ferilinn minn á hverjum einasta degi og er alltaf að tala um þetta. Fólk er forvitið um þessa tónlistartengingu og ég er afar stoltur af mínu framlagi. Svo er það þannig að maður vill ekki hafa svona skítablett á ferlinum sem einhver annar hefur klínt á þig.“

Bubbi Morthens.
Bubbi Morthens. mbl.is/Styrmir Kári

„Athyglissjúkur“ Bubbi

Hann bætir við að Íslensk popp- og rokksaga sé staðreyndarþáttur um íslenska tónlist og þetta sé í eina skiptið sem veist hafi verið persónulega að nokkrum aðila. „Þegar ég bað Rúv um að klippa þetta út fyrir endursýninguna var því hafnað. Þess vegna vil ég sjá hvort lögin séu ekki mín megin í þessu máli. Það vekur furðu að Rúv skuli ekki hafa aflað sér heimilda.“

Steinar Berg segir að stöðugt samband hafi verið á milli sín og Bubba frá árinu 1982 og þetta mál hafi aldrei borið á góma fyrr en í þessum þætti. „Það kemur ekkert á óvart með Bubba Morthens. Hann er athyglissjúkur einstaklingur sem upphefur sjálfan sig á kostnað annarra. Það kemur á óvart að Rúv skuli hafa staðið með þessu og leyfi persónulegar árásir af þessu tagi í gegnum ríkisfjölmiðil.“

Alvarlegra en „Bubbi fallinn“

Að sögn Steinars er málið núna alvarlegra en þegar Bubbi fékk dæmdar skaðabætur eftir að frétt með mynd af honum í tímaritinu Hér & nú birtist með fyrirsögn þar sem stóð að hann væri fallinn. „Hann taldi að það hefði laskað orðspor sitt og feril. Í þessu tilfelli finnst mér þetta vera alvarlegra mál. Það er fullyrt að ég hafi misnotað aðstöðu mína til þess að hafa af honum fé þegar hann var ungur og reynslulaus. Ég vil ekki einu sinni hafa það sem umræðugrundvöll þegar rætt er um minn feril,“ segir Steinar.

Stefna hans gegn Bubba og Rúv verður birt í vikunni áður en Héraðsdómur Reykjavíkur tekur aftur til starfa eftir sumarfrí 1. september.

Bubbi með hljómsveitinni Egó í Félagsheimilinu Stapa í Njarðvík snemma …
Bubbi með hljómsveitinni Egó í Félagsheimilinu Stapa í Njarðvík snemma á níunda áratugnum. Ljósmynd/Einar Falur Ingólfsson

„Nýtti sér bágt ástand mitt“

„Þetta kemur mér ekkert á óvart. Hann er búinn að vera í málaferlum á fullu undanfarin ár. Þetta virðist vera honum hugleikið,“ segir Bubbi Morthens, spurður út í stefnu Steinars Berg.

„Það vita allir sem vilja að ég var í gríðarlegri óreglu á þessum árum og hann nýtti sér bágt ástand mitt.“

Bubbi kveðst ekki ætla að draga ummæli sín til baka á nokkurn hátt. „Hann hafði fínt upp úr því að gefa út mig eða Egóið og við fengum lítinn sem engan pening frá honum. Allir samningar sem hann gerði voru þesslegir að hann hafi lögfræðinga sín megin en við höfðum enga lögfræðinga okkar megin og ég hafði aldrei neina lögfræðinga mín megin. Fyrir utan það var ég ekki fær eða dómbær til að skrifa undir neitt á þessum árum, þannig séð," segir Bubbi.

„Hann nýtti sér bágt ástand mitt. Ég var ekki betur á mig kominn á þessum árum en þetta. Ég var dópaður frá morgni til kvölds, meira eða minna.“

Fréttatilkynning Steinars Berg:

„Í þættinum Popp- og rokksaga Íslands sem upphaflega var sýndur 13 mars s.l. sakaði Bubbi Morthens, undirritaðan um níðingsskap og blekkingar. Þegar ég bar svo af sér aðdróttanirnar færðist Bubbi allur í aukana í fullyrðingum sínum. Farið var fram á víð RÚV, sem er framleiðandi þáttanna, að nefnd ummæli yrðu klippt út, en því hafnað.  Þátturinn er endursýndur í kvöld 17. ágúst.

Ég hef því ákveðið í framhaldinu að láta reyna á rétt minn fyrir íslenskum dómstólum og mun að stefna Bubba Morthens og RÚV fyrir ærumeiðandi ummæli og birtingu þeirra. Hróbjartur Jónatansson Hrl. hjá lögfræðistofunni Jónatansson & Co. mun sjá um málið fyrir mína hönd.

Jafnframt hef ég tekið saman upplýsingar og gögn sem tengjast samskiptum okkar Bubba Morthens og birt á heimasíðunni:

www.sannleikurmalsins.com

Virðingarfyllst

Steinar Berg, Fossatúni Borgarfirði.“

Uppfært: Steinar Berg segir að ummæli Bubba hér að ofan séu ósannindi. Hann segist tvisvar sinnum á ævinni hafa verið viðriðinn málarekstur gagnvart öðrum aðila og í báðum tilvikum hafi verið dæmt sér í vil. Hann kveðst aldrei hafa haft lögfræðinga eða fagmenn á samningafundum með Bubba eða öðrum sem hann hann vann með, nema tónlistarmennirnir hafi óskað eftir því. „Fórnarlambsvæðing Bubba Morthens á sjálfum sér hvað dópneyslu varðar nær út yfir allan þjófabálk og er alls ekki sú hlið sem við hjá Steinum hf. sáum. Þvert á móti var hann orkusamur og afkastamikill eins og verkin sanna," segir Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka