Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur farið fram á það við ráðherra samgöngumála og vegamálastjóra að tvöföldun Reykjanesbrautar verði sett á samgönguáætlun hið fyrsta en þar til henni verði lokið verði tafarlaust farið í þrenns konar framkvæmdir:
1. Tengja Hafnaveg við hringtorgið við Stekk.
2. Setja hringtorg við gatnamót Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar.
3. Setja hringtorg við gatnamót Aðalgötu og Reykjanesbrautar.
„Með því að fara í þessar framkvæmdir verður öllum megin slysagildrum á þessum einum fjölfarnasta vegarkafla útrýmt og öryggi vegfarenda á Reykjanesbraut stóraukið. Þá mun einnig vinnast tími til að vinna að endanlegri lausn sem er tvöföldun Reykjanesbrautarinnar,“ segir í bókun bæjarstjórnar sem var samþykkt á fundi seinnipartinn í gær.
„Á undanförnum árum hefur umferðin á þessum kafla Reykjanesbrautar stóraukist bæði vegna íbúafjölgunar og stórauknum straumi ferðamanna. Nú er svo komið að ekki er hægt að bíða lengur með að tvöfalda þennan vegakafla sem telja þrjú svokölluð „T“ gatnamót.“
Hópurinn Stopp, hingað og ekki lengra! er jafnframt að leggja lokahönd á umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við fjögurra ára samgönguáætlun.
Hópurinn berst fyrir því að tvöföldun Reykjanesbrautar verði lokið og fleiri vegaframkvæmdum á Suðurnesjum.
„Í umsögninni förum við yfir þetta lið fyrir lið. Við munum fylgja henni eftir og höfum fengið þingmenn kjördæmisins með okkur í lið. Við munum óska eftir því að fá að hitta samgöngunefnd;“ segir Ísak Ernir Kristinsson, einn meðlimur í hópnum.
Hópurinn fundaði í síðustu viku með þingmönnum kjördæmisins og fleiri stjórnmálamönnum þar sem farið var yfir kröfurnar. Þingmennirnir voru sammála því að nauðsynlegt væri að setja upp hringtorg á vegamótum Aðalgötu og Reykjanesbrautar og á vegamótum Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar.
Hópurinn fór fram á að aukafjármagn fengist í framkvæmdina á þessu ári og að framkvæmdir myndu ekki hefjast fyrr en í nóvember 2016.
Ísak kveðst vera mjög ánægður með gang mála. „Það eru allir búnir að viðurkenna þörfina og vandann og fallast á þau rök okkar að það er brýnt að fara í þessar framkvæmdir. Núna viljum við fara að sjá eitthvað gerast og við viljum að þetta tefjist ekki fram yfir kosningar, því þá erum við komin aftur á byrjunarreit,“ segir Ísak.