Ofursnapparinn og blaðamaðurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir gekk að eiga unnusta sinn, Guðmund Þór Valsson, í Eskifjarðarkirkju á laugardag. Brúðkaupið var hefðbundið að mörgu leyti nema ef til vill fyrir þær sakir að rúmlega 13.000 manns fylgdust með því sem fram fór í gegnum Snapchat.
Frétt Smartlandsins á mbl.is: Kynntust í teiti á Reyðarfirði
Guðrún Veiga hefur getið sér gott orð sem snappari þar sem hún spjallar hispurslaust um daginn og veginn, oftar en ekki með rauðvínsglas í hendi, við fylgjendur sína. Hún sagði fyrst frá snappinu sínu á bloggsíðunni sinni, gveiga85.blogspot.is, í október í fyrra. Hana grunaði hins vegar ekki að fylgjendurnir myndu skipta þúsundum áður en langt um liði. „Það var rosalega fjarri mér að ég myndi enda sem ein af þeim sem eru með andlitið á sér límt við símaskjáinn, gjammandi við hann allan daginn, mér fannst ekkert fáránlegra í öllum heiminum. Svo veit ég ekki alveg hvað kom yfir mig. Núna er þetta bara orðinn órjúfanlegur hluti af deginum.“
Guðrún Veiga bað Guðmundar fyrir um ári síðan. Guðmundur er þó þekktari undir nafninu Tuskubrandur meðal fylgjenda snappsins, en þar sýnir hann oft góða takta með tuskuna á lofti. Fylgjendur hafa fengið að fylgjast með brúðkaupsundirbúningnum í beinni á Snapchat síðastliðið ár og því fannst Guðrúnu Veigu hún ekki geta annað en leyft fólki að fylgjast með stóra deginum. „Brúðkaupið yfirtók líf mitt síðustu mánuði þannig að mér fannst svo leiðinlegt ef fólk fengi bara að fylgjast með síröflandi kvíða- og taugahrúgu en fengi svo ekkert í staðinn.“ Móðir hennar benti henni þó góðfúslega á að það kæmi ekki til greina að hún yrði sjálf með símann á lofti á stóra daginn. Vinkona Guðrúnar Veigu, Sigrún Sigurpálsdóttir, sá því um snappið á brúðkaupsdaginn, en þær kynntust einmitt í gegnum miðilinn. Guðrún Veiga er afar hamingjusöm með hvernig til tókst og svífur enn um á bleiku skýi. Hún er að sjálfsögðu búin að horfa á snöppin frá laugardeginum, oftar en einu sinni. „Þegar ég var að horfa á þetta í þrettánda skipti tók eiginmaðurinn af mér símann og bað mig vinsamlegast um að hætta þessu.“ Guðrún Veiga er alls ekki búin að fá nóg af Snapchat og geta áhugasamir fylgst með henni undir notendanafninu gveiga85.
Bára Atladóttir hannaði kjólinn, sem Guðrún Veiga er í skýjunum með. „Við pöntuðum efnið í kjólinn á Ali Express, það er hægt að finna allt þar.“ Guðrún Veiga nýtti sér kínversku vefverslunina til hins ýtrasta í undirbúningnum. „Ég er farin að fá ótrúlegustu skilaboð um að fólk vilji kaupa hitt og þetta sem það sá, allt frá borðbúnaði yfir í brúðarkjólinn, þannig að ég hef engar áhyggjur af að ég losni ekki við þetta.“ Kjólinn mun hún þó ekki láta frá sér.