Keppnin fer vel af stað

Keppendur að lokinni fyrstu dagleið í Húsafelli í gær.
Keppendur að lokinni fyrstu dagleið í Húsafelli í gær. Ljósmynd/Glacier360°

Fjallahjólreiðakeppnin Glacier 360° er hafin en 62 keppendur voru ræstir af stað frá Geysi klukkan tíu í gærmorgun. Keppnin er ein sú umfangsmesta sem haldin hefur verið hér á landi en hjólað verður á þremur dögum umhverfis Langjökul.

Frétt mbl.is: Hjóla umhverfis Langjökul

„Það hefur gegnið mjög vel og veðrið er náttúrlega ótrúlegt,“ segir Björk Kristjánsdóttir hjá Made of Mountains í samtali við mbl.is. Veður var eins og best verður á kosið, hiti um 14 til 15 gráður, logn og léttskýið. Smávægileg dekkjavandræði og einhverjir krampar gerðu vart við sig í gær að sögn Bjarkar en að öðru leiti hefur dagurinn gengið stóráfallalaust fyrir sig.

Stutt á milli fyrstu liða

Örmjótt var á munum þegar fyrstu lið komu í mark í gær eftir fyrsta keppnisdag en fyrstir í mark í Húsafelli var Team Hardrocx Abax by Swix, skipað Ástralanum Gregory Saw og Norðmanninum Thomas Engelsgjerd. Næst var annað tveggja liða Team Trek Mesterhus frá Noregi skipað þeim Knut Erik Nesteby og Anders Fiskvik. Þá voru íslenski hjólreiðakappinn Ingvar Ómarsson og félagi hans Christian Helmig þeir þriðju í mark.

Keppendur hjóla í stórbrotinni íslenskri náttúru. Á fyrsta degi var …
Keppendur hjóla í stórbrotinni íslenskri náttúru. Á fyrsta degi var hjólað um Haukadalsheiði, Eyfirðingaleið sunnan Langjökuls og gegnum Kaldadal niður í Húsafell, alls 95 kílómetrar. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Fyrstar kvenna voru þær Ágústa Edda Björnsdóttir og Eva Jónasdóttir í Team Garmin Iceland. Eva segir að vel hafi gengið hjá þeim Ágústu, þær séu vel samstilltar og stefna á að halda sætinu út keppnina.

„Þetta var alveg dásamlegur dagur, yndislegt veður og landslagið náttúrlega alveg ótrúlega flott,“ segir Eva í samtali við mbl.is. Hún hefur hvorki hjólað né ekið leiðina áður en segir aðstæðurnar hafa verið frábærar og veginn góðan, þrátt fyrir þvottabretti á köflum.

„Með tilliti til veðurs þá gæti þetta náttúrlega ekki verið betra,“ segir Eva en þetta er annað sumarið sem hún stundar fjallahjólreiðar af einhverju ráði en hún hefur að eigin sögn keppt meira á götuhjóli.

Sex mánaða með í för

Þau Arna Benný Harðardóttir og Jónas Stefánsson í Team Cintamani eiga sex mánaða gamlan son sem er með í för. Arna er með drenginn á brjósti og reynast drykkjastöðvarnar því ekki einungis keppendum vel heldur einnig herramanninum unga.

„Þetta er mikið ferða og fjalla fólk og þau eru búin að vera með strákinn út um allar trissur,“ segir Björk sem hún hitti þau Örnu og Jónas við eina drykkjastöðina í gær. Amma drengsins unga hefur ferjað hann á milli svo hann geti einnig fengið að súpa við drykkjastöðvarnar.

Keppnin heldur áfram í dag og voru hjólreiðamenn ræstir af stað frá Húsafelli nú klukkan níu í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert