Vissi að konan var að berjast í sjónum

mbl

„Þá sé ég að það liggur lítið barn ofan á manninum. Ég stökk út úr bílnum, bað konuna um að hringja í Neyðarlínuna og hleyp niður í fjöruna sem er stórgrýtt,“ segir Einar Magnússon skipstjóri sem kom ásamt eiginkonu sinni pari og tveggja ára barni þeirra til bjargar í Vattarfirði.

Bíll fjölskyldunnar hafnaði í sjónum og höfðu nokkrir bílar ekið framhjá slysstaðnum án þess að taka eftir manninum og barninu sem lágu í fjörunni.

Hjónin Einar Magnússon og Bryndís Sævarsdóttir voru heimleið úr árlegri berjaferð á Vestfjörðum í gær. Þau voru innst í Vattarfirði þegar Einar kom auga á mann sem lá í fjörunni. Í fyrstu taldi hann að maðurinn hefði verið að baða sig í sjónum en sá síðan glitta í barn sem lá ofan á honum. Hann stökk út úr bílnum og niður í fjöru til að koma þeim til aðstoðar.

Lá örmagna í fjörunni

„Þegar ég er að ná þeim upp úr fjörunni kemur konan upp úr sjónum. Bíllinn var horfinn á kaf, hann var sokkinn. Konan hafði þá náð að losa sig,“ segir Einar sem hafði reynt að spyrja manninn hvort fleiri hefðu verið í bílnum. Maðurinn átti erfitt með að tjá sig þar sem hann var örmagna eftir að hafa bjargað sjálfum sér og barninu út úr sökkvandi bílnum. Konan náði að koma sér að fjörunni og hjálpaði Einar henni í land. Að sögn hans er parið ekki synt.  

„Þá var konan mín búin að stöðva fleiri bíla og fleira fólk kom hlaupandi. Við náðum að koma þeim upp á veginn en erum í algjöru símasambandsleysi, mitt á milli Patreksfjarðar og Búðardals,“ segir Einar.

Eftir nokkra stund ekur vörubílstjóri um veginn og nemur staðar hjá fólkinu. Ná þau sambandi við Neyðarlínuna í gegnum síma vörubílstjórans og var ákveðið að Einar og Bryndís myndu keyra með fólkið á móti sjúkrabílnum sem kom frá Búðardal. Svo heppilega vildi til að erlendur læknir var meðal þeirra sem stöðvað höfðu við slysstaðinn og gat hann litið á fólkið áður þau héldu af stað á móti bílnum.  

„Þarna vorum við búin að koma þeim inn í bílinn okkar. Þau voru alveg ísjökulköld en við tókum þau úr fötunum og settum þau í föt af okkur. Við fórum af stað og keyrðum í rúman klukkutíma áður en við mættum bílnum,“ segir Einar.

Nokkrir höfðu ekið framhjá

Að sögn Einars slasaðist maðurinn lítillega á fæti en konan og barnið sluppu betur.  „Þetta er alveg ótrúlegt, að þau skildu hafa komist út úr bílnum af því að hann sekkur strax bíllinn, hann fer á bólakaf. Maðurinn var í algjöru sjokki, örmagna. Hann náði barninu út og vissi auðvitað að konan hans var að berjast við að komast út,“ bætir Einar við.

„Hann hafði orðið var við einhverja bíla keyra framhjá sem höfðu ekki komið auga á hann og barnið. Það er alveg með eindæmum að ég skildi reka augun í þau. En sem betur fer, þau voru alveg búin þarna í sjónum, ég veit ekki hvort þau hefðu getað komið sér þaðan.“

Fjölskyldan kom hingað til lands frá Bandaríkjunum í gærmorgun og ætluðu að dvelja á Íslandi í þrjár vikur. Einar og Bryndís ætla að bjóða fólkinu í heimsókn áður en það heldur af landi brott.

Barðaströnd.
Barðaströnd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert