Miklar lokanir verða fyrir bílaumferð í miðborg Reykjavíkur í dag frá kl. 7 að morgni til kl. 2 eftir miðnætti vegna dagskrár Menningarnætur. Menningarnótt er stærsta hátíð sem haldin er hér á landi. Hátt í 300 viðburðir eru í boði í miðborginni. Gestir Menningarnætur verða að reiða sig á strætó, reiðhjól eða tvo jafnfljóta.
Lokanirnar afmarkast við Snorrabraut, gömlu Hringbraut, Ægisgötu og Mýrargötu, eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Sæbraut er einnig lokuð frá Snorrabraut. Úti á Granda er hluti gatna í kringum Sjóminjasafnið lokaður fyrir bílaumferð. Þetta eru hluti Grandagarðs að Grunnslóð, Rastargata og Hlésgata. Þetta er eini dagur ársins sem þörf er á svo umfangsmiklum götulokunum.
„Götulokanir eru með svipuðum hætti og í fyrra en hafa verið útvíkkaðar út á Granda því þar er áherslusvæði Menningarnætur í ár. Þar verður fjöldi viðburða og fleiri en hafa verið undanfarin ár enda hefur menningar- og mannlíf blómstrað þar síðustu misseri,“ segir Berghildur Bernharðsdóttir, menningar- og kynningarfulltrúi Höfuðborgarstofu.
Hún bendir á að yfir helmingur styrkja sem var úthlutað til verkefna á Menningarnótt í ár var til viðburða úti á Granda. Búist er við að að lágmarki leggi um 100.000 manns leið sína í miðborgina á þessum degi líkt hefur verið undanfarin ár. Auk þess hefur fjöldi ferðamanna á landinu aldrei verið meiri en í ár. Þess má geta að eitt stærsta skemmtiferðaskip sumarsins með um 3.900 farþega leggur upp að Reykjavíkurhöfn í dag sem mun eflaust fjölga gestum hátíðarinnar töluvert. „Það er góð veðurspá svo þetta verður sannkölluð hátíð,“ segir Berghildur.
Sendur var dreifipóstur til allra íbúa á þeim svæðum sem lokanirnar ná til og þeim kynntar lokanir á Menningarnótt. Berghildur segir kynninguna hafi gengið vel enda er mikið lagt upp úr að kynna vel fyrir íbúum lokanirnar.
Lokunarsvæðið þjónar þeim tilgangi að halda götum greiðum til að sjúkrabílar, lögreglubílar og slökkviliðsbílar geti auðveldlega komist að ef þörf er á. Rúmlega 40 stofnanir, félagasamtök og sérfræðingar koma að útfærslu götulokana, öryggismála, löggæslu og samgangna.
Gestir Menningarnætur eru hvattir til að nýta sér ókeypis strætósamgöngur, en akstur strætó verður að mestu eins og aðra laugardaga. Vegna götulokana í miðborginni mun strætó aka að og frá Hlemmi og gömlu Hringbraut þar sem leiðir um miðbæinn stöðvast.
Hefðbundið leiðakerfi verður síðan gert óvirkt kl. 22.30 og áhersla lögð á að flytja gesti úr miðbænum frá gömlu Hringbraut og Hlemmi. Síðustu ferðir verða farnar kl. eitt aðfaranótt sunnudags.
Sérstök skutluþjónusta Strætó verður starfrækt frá kl. 7.30 að morgni og til kl. eitt eftir miðnætti. Þjónustan er fyrir þá sem vilja komast hratt og örugglega inn á mitt hátíðarsvæðið. Skutlurnar aka frá bílastæði Íslandsbanka á Kirkjusandi með viðkomu á stoppistöðvum Strætó í Borgartúni og á Hlemmi og þaðan er farið beinustu leið upp að Hallgrímskirkju og gömlu Hringbraut gegnt BSÍ. Skutlustöðvarnar verða merktar.
Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Eftir klukkan 21 munu leigubílar við Skúlagötu færast yfir á gömlu Hringbraut við enda Njarðargötu. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu.