Það var lífleg stemning í miðbænum í dag þegar Menningarnótt var haldin með pomp og prakt í 21. sinn. Mikill mannfjöldi safnaðist saman, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ljósmyndari mbl.is tók, og skemmtu bæðir ungir og aldnir sér fram á kvöld.
Boðið var upp á fjölmarga viðburði um allan miðbæinn.
Menningarnótt markar upphaf menningarársins 2016 til 2017 í Reykjavík. Þá ljúka lista- og menningarstofnanir, hátíðir, listmenn, listhópar og fjölmargir aðrir upp dyrum sínum og bjóða upp á dagskrá sem endurspeglar starfsemi þeirra og það sem er framundan á árinu.
Var fólk hvatt til þess að skilja bílinn eftir heima, taka strætó, koma fótgangandi eða á hjóli.
Þess má geta að tónaflóð Rásar 2 fer fram á Arnarhóli í kvöld, en meðal annars munu Glowie, rappararnir Emmsjé Gauti og félagar hans í Úlfur Úlfur koma fram. Á eftir þeim stígur Bubbi Morthens á svið. Foringi Fjallabræðra, Halldór Gunnar Pálsson, stýrir lokaatriðinu sem nefnist „Ljósvíkingar að vestan“ en þar koma fram helstu tónlistarmenn Ísafjarðarbæjar.
Tónleikarnir á Arnarhóli standa til 23 eða fram að flugeldasýningu Menningarnætur.