Deilur í bæjarstjórn um einkasjúkrahúsið

Deilt var uum vinnubrögð og áform um einkasjúkrahús á fundi …
Deilt var uum vinnubrögð og áform um einkasjúkrahús á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í vikunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Skoðanamunur er innan bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um úthlutun stórrar lóðar á Sólvöllum fyrir einkasjúkrahús á vegum fyrirtækisins MCPB. Átta af níu bæjarfulltrúum telja að eðlilega hafi verið staðið að málinu, en fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gagnrýndi vinnubrögðin og lóðasamninginn harðlega í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnarinnar.

Þegar fréttist fyrir nokkrum vikum að bæjarráð Mosfellsbæjar hefði í sumarleyfi bæjarstjórnarinnar heimilað Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að undirrita samning við fyrirtækið MCPB ehf. um úthlutun lóðar undir 30 þúsund fermetra byggingu sem hýsa ætti einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel, urðu strax miklar deilur um málið. Var deilt um vinnubrögð bæjayfirvalda en þó meira um áformin sjálf og áhrif fyrirhugaðrar starfsemi einkasjúkrahússins á íslenskt heilbrigðiskerfi.

Fram kom í frétt hér í blaðinu að kostnaður við verkefnið yrði um 54 milljarðar, á spítalanum yrðu um 150 herbergi og á hótelinu um 250.

Engin undirbúningsvinna

Málið kom til umræðu á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á miðvikudaginn. Í bókun Sigrúnar H. Pálsdóttur, fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, er átalið að í „sumarfríi bæjarstjórnar hafi óþekktum aðilum í trássi við eðlilega verkferla verið úthlutað samtals hundrað og tuttugu þúsund fermetrum af landi Mosfellsbæjar til eignar undir þrjátíu þúsund fermetra einkasjúkrahús og -hótel með þyrlupalli“. Er fullyrt að „handhöfum leyfist að veðsetja lóðirnar að fengnu óskilgreindu leyfi Mosfellsbæjar og líka kaupréttinn“.

Þá segir í bókuninni að engin gögn hafi fylgt málinu sem bentu til forvinnu af neinu tagi; engin áreiðanleikakönnun hafi verið gerð á því hvort um væri að ræða aðila sem væru traustsins verðir; engin greinargerð viðskiptabanka um fjárhagslega burði þeirra til að ráðast í verkefnið; engir útreikningar á arðsemi þess; engar upplýsingar um umhverfisáhrif og ekkert samráð verið haft við heilbrigðisyfirvöld.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar segja aftur á móti í bókun á sama fundi að þeir telji að eðlilega hafi verið staðið að úthlutun lóðarinnar.

Fjárhagslegur ávinningur

Þeir segja að samningurinn hafi verið í samræmi við lög og reglur og í takt við yfirlýsta stefnu Mosfellsbæjar sem komi fram í aðalskipulagi bæjarins og samþykkt hafi verið á síðasta kjörtímabili af öllum flokkum sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn.

Bæjarfulltrúarnir segja að fyrirvari sé í samningnum af hálfu Mosfellsbæjar um framlagningu upplýsinga um fjárfesta, viðskiptaáætlun, staðfestingu á fjármögnun og greiðslu gatnagerðargjalda. Ef þessum skilyrðum verði ekki fullnægt muni Mosfellsbær rifta samningnum. Jafnframt sé með öllu óheimilt að veðsetja lóðina nema fyrir liggi samþykki Mosfellsbæjar. Loks segja bæjarfulltrúarnir átta að fjárhagslegur ávinningur Mosfellsbæjar yrði mikill ef af umræddum framkvæmdum verði. Þeir segjast þess fullvissir að samningurinn um lóðarúthlutunina tryggi hagsmuni Mosfellsbæjar, hvernig sem málinu ljúki.

Óvissa um framhaldið

Ekki er öruggt að einkasjúkrahúsið umdeilda rísi í Mosfellsbæ. Eftir háværar deilur um málið ákváðu íslenskir þátttakendur í verkefninu að draga sig út úr því þar til ljóst væri hvaða erlendu fjárfestar ættu hlut að máli. Henri Middeldorp, helsti forsvarsmaður verkefnisins og fulltrúi hinna erlendu fjárfesta, sagði í kjölfarið að verkefninu yrði frestað þar til hægt væri að ræða það við ráðamenn þjóðarinnar og tillögur væru komnar frá stjórnvöldum um breytingar á áformunum. Kristján Júlísson heilbrigðisráðherra sagði að hugmyndir fjárfestanna hefðu ekki verið kynntar stjórnvöldum og því væri erfitt fyrir þau að gera tillögur að breytingum á þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka