Menningarnótt 2016 verður formlega sett Grjótaþorpinu í Reykjavík í dag klukkan 12.30. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, setur hátíðina í Álfasteinsgarði Grjótaþorpsins við lúðrablástur tónleikasveitar frá Þýskalandi. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar verður viðstaddur opnunina en bærinn er gestasveitarfélag Menningarnætur í ár.
Eftir setninguna í Grjótaþorpinu býður borgarstjóri Ísafjarðarbæ velkominn í Ráðhúsið klukkan 13.00. Þar tekur svo við glæsileg dagskrá þar sem í boði verður ísfirsk tónlist, matur og menning. Fjallabræður taka lagið milli atriða frá klukkan 13-16. Eftir setningu Menningarnætur tekur við afar fjölbreytt dagskrá með hátt í 300 ókeypis viðburðum um alla miðborgina.
„Vöfflukaffið hefur fest sig í sessi á Menningarnótt. Á annan tug fjölskylda og vina hefur tekið sig saman í ár og býður gesti velkomna inn á heimili sín að þiggja vöfflur og með því. Heyrst hefur að nokkrir íbúar muni tjalda öllu til og bjóða upp á tónleika og fleira skemmtilegt. Hér er hægt að sjá heimili sem bjóða upp á vöfflur á Menningarnótt,“ segir í tilkynningu.
Nánari upplýsingar er að finna á www.menningarnott.is
Hér að neðan má sjá brot af því helsta sem verður í boði í dag:
GRANDINN
Grandasvæðið er áherslusvæði Menningarnætur þar sem í boði verður fjöldi áhugaverðra og óvæntra viðburða og áhersla lögð á að fólk komist vel leiðar sinnar. Popphljómsveitin Milkywhale heldur í óhefðbundna hvalaskoðunarferð frá Gömlu höfninni sem er í senn útitónleikar, sigling og danssýning. Í Sjóminjasafninu verður hægt að læra að smíða eigin bát. Völundarhúsið Askur Yggdrasils og Sendiráð Rockall verða á Vesturbugt. Boðið verður upp á Ljóðaslamm á Kaffislipp og Harpa býður gestum upp á glæsilega dagskrá í tilefni 5 ára afmæli hússins.
TÓNAFLÓÐ-RÁSAR 2
Tónaflóð 2016 Rásar 2 í ár nefnist - Tekið ofan fyrir Ísfirðingum. Tónleikarnir eru sérlega glæsilegir en RÚV fagnar 50 ára afmæli sínu í ár. Þeir sem fram koma eru Glowie, rappararnir Emmsjé Gauti og félagar hans í Úlfur Úlfur. Á eftir þeim stígur Bubbi Morthens á svið. Foringi Fjallabræðra, Halldór Gunnar Pálsson, stýrir lokaatriðinu sem nefnist „Ljósvíkingar að vestan“ en þar koma fram helstu tónlistarmenn Ísafjarðarbæjar. Tónleikarnir á Arnarhóli hefjast kl. 20.00 og standa til kl. 23.00 eða fram að flugeldasýningu Menningarnætur.
GARÐPARTÍ-30 ÁRA AFMÆLISTÓNLEIKAR BYLGJUNNAR OG STÖÐVAR 2
Bylgjan og Stöð 2 verða með glæsilegt garðpartí í Hljómskálagarðinum frá kl. 17–22.45 þar sem fram koma m.a.: Jón Jónsson, Amabadama, Bítlavinafélagið, Friðrik Dór, Mezzoforte, Valdimar, Á móti sól, Geiri Sæm og Hunangstunglið og Axel Flóvent. Boðið verður upp á veitingar í upphafi garðpartísins.
SKUGGAHVERFIÐ
Á Klapparstíg verður hægt að dansa undir tónum Dj Margeirs. Á Hverfisgötu verða tónleikarnir Hip Hop Reykjavík. Meðal þeirra sem koma fram eru: Gísli Pálmi, GKR og Aron Can. New Neighborhoods Festival er ný hátíð sem verður haldin á Kex hostel.
KVOSIN
Á Lækjartorgi verður salsakennsla og salsadans. Karlakór Reykjavíkur mun skjóta upp kollinum víðsvegar um borgina. Í Hafnarhúsinu verður hjólastóla-diskórokk þar sem fram koma Páll Óskar, Helgi Björns og Þórunn Antonía. Hitt húsið verður með fjölbreytta dagskrá með tónleikum og gjörningum.
VATNSMÝRIN
Þjóðminjasafnið býður upp á leiðsögn á íslensku og ensku um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til. Ari Eldjárn verður með uppistand á safninu eins og honum einum er lagið. Í Hljómskálagarðinum verður boðið upp á skátaþrautir í boði Skátafélags Reykjavíkur. Þar verða jafnframt 30 ára afmælistónleikar Bylgjunnar og Stöðvar 2 þar sem mikill fjöldi landsfrægra tónlistarmanna.
ÞINGHOLT
Sendráð Bandaríkjanna er með opið hús þar sem hægt verður að fræðast um forsetakosningar í Bandaríkjunum og smakka alvöru Brownie. Vöfflukaffið verður á sínum stað í Þingholtunum en, þessi skemmtilega hefð heldur sínu striki og nú í tíunda skipti. Tangófélag Reykjavíkur er með útitangó á Bríetartorgi. Á Listasafni Íslands verða leiðsagnir um sýningar safnsins fyrir börn og fullorðna.
GOÐAHVERFI
Í Hallgrímskirkju verður Sálmafoss, samfelld dagskrá með kórsöng, almennum samsöng og orgelleik. Ljósmyndasýning verður í Mengi þar sem hægt er að sjá smáatriðin í borgarlandslaginu. Kaolin keramik gallerý verður með opið hús þar sem listamenn sýna vinnubrögð sín á rennibekknum og leika sér að leirnum. Húlladúllan verður á Óðinstorgi með hið sívinsæla Húllafjör.
AUSTURBÆR
Mucho miðbær verður í porti við Laugaveg 23, þar sem listamenn á vegum Studio Festisvals bjóða upp á tónlist, gjörninga og almennt glens. Gallerí Fold verður með ratleik fyrir börn og fullorðna ásamt mörgum skemmtilegum viðburðum sem standa yfir allan daginn. Á Kjarvalsstöðum verður boðið upp á fjölskylduleiðsögn og listasmiðju byggða á tveimur sýningum í safninu ásamt listamannaspjalli.
FLUGELDASÝNINGIN
Flugeldasýning Menningarnætur í ár er í boði Reykjavíkurborgar og verður að venju glæsileg. Hún fer fram við Hörpu kl. 23 en það er Hjálparsveit skáta í Reykjavík sem sér um skipulag og framkvæmd hennar ásamt Höfuðborgarstofu. Mælt er með því að áhorfendur staðsetji sig á Arnarhóli til að njóta sýningarinnar sem best.