131 mál á borði lögreglu

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt, þá aðallega í miðbænum, þar sem talið er að á annað hundrað þúsund manns hafi skemmt sér.

Frá klukkan fimm síðdegis í gær til fimm í nótt er 131 mál skráð í dagbók lögreglu. Mörg málanna tengjast ölvun og hávaða en þá voru einnig höfð afskipti af unglingum í miðbænum, hellt niður áfengi sem þeir höfðu meðferðis og hringt í foreldra þeirra.

Ellefu manns voru vistaðir í fangageymslu lögreglu, bæði sökum ölvunar og eins fyrir ýmis brot.

Klukkan hálffjögur í nótt var tilkynnt um slys við Suðurströnd á Seltjarnarnesi þegar maður datt á reiðhjóli og rotaðist. Var hann með áverka í andliti og fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar.

Þá handtók lögreglan mann í annarlegu ástandi við Grandagarð á fyrsta tímanum í nótt. Var hann vistaður í fangageymslu.

Annar maður, einnig í annarlegu ástandi, var handtekinn við Reykjanesbraut og Sprengisand skömmu eftir klukkan eitt í nótt. Er hann grunaður um eignaspjöll. Var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Tilkynnt var um slys á veitingahúsi við Laugaveg skömmu eftir þrjú í nótt, en kona hafði dottið í stiga. Var hún flutt með sjúkrabíl á slysadeild en hún fann fyrir eymslum í öxl.

Sofnaði undir stýri

Lögregla fékk klukkan hálffimm í nótt tilkynningu um konu sem hafði sofnað undir stýri við gatnamót Laugalækjar og Sundlaugavegar. Sofnaði hún nánar tiltekið er hún beið við umferðarljós. Er hún grunuð um ölvun við akstur og var vistuð í fangageymslu fyrir rannsókn máls, að sögn lögreglunnar.

Tilkynnt var innbrot í geymslu í fjölbýlishúsi í Breiðholti klukkan 18.40 í gærkvöldi. Var útivistarbúnaði stolið.

Eins þurfti lögreglan að stöðva för nokkurra ökumanna í gærkvöldi og nótt vegna ölvunar við akstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert