Það var líf og fjör í Reykjavík þar sem Menningarnótt var haldin í tuttugasta og fyrsta sinn. Samkvæmt upplýsingum frá Höfuðborgarstofu var metaðsókn á hátíðina sem endaði með glæsilegri flugeldasýningu sem var undir styrkri stjórn Hjálparsveitar skáta.
Talið er að vel á annað hundrað þúsund manns hafi skemmt sér í miðborg Reykjavíkur í gær og fram á kvöld í afar fallegu veðri, að því er segir í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu.
Hátíðarsvæðið var aftur stækkað í ár og náði alla leið út á Granda sem gafst vel, þá voru viðburðir í Hljómskálagarðinum frá morgni til kvölds, en alls voru hátt í 300 fjölbreyttir viðburðir á dagskrá Menningarnætur víða um miðborgina.
Þá kemur fram að lögreglan segir að aðsókn hafi verið afar jöfn og þétt frá hádegi og í allt kvöld. Þá gekk umferð greiðlega frá miðborginni strax eftir flugeldasýninguna. Stemningin hafi verið afar góð í allan dag og greinilegt að fólk hafi kunnað vel að meta að geta gengið um götur miðborgarinnar á þessum degi án þess að þurfa að hafa áhyggjur af bílaumferð.