Kosið um framtíð flugvallarins

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Rax

„Það er mikilvægt að ná þverpólitískri sátt um framtíð Reykjavíkurflugvallar,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en hann er einn flutningsmanna þingsályktunartillögu sem leggja á fram á næstu dögum um að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

„Bakvið þetta mál er þverpólitískur áhugi enda mál sem varðar okkur öll þvert á flokka og búsetu. Þess vegna standa að þessari ályktun þingmenn flestra flokka og það sem fyrir okkur vakir er að kalla eftir afstöðu þjóðarinnar til flugvallarins. Fá endanlega og marktæka niðurstöðu um það hvort Reykjavíkurflugvöllur verður áfram miðstöð innanlands- og sjúkraflugs, líkt og hann hefur verið, eða hvort hann eigi að fara.“

Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fer flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni endanlega árið 2024 en í sumar var þjónusta og öryggi flugvallarins skert með lokun neyðarbrautarinnar.

Hluti af þingkosningum

Æskilegt er að mati Þorsteins að kosið verði um framtíð flugvallarins samhliða alþingiskosningum en samkvæmt lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er orðið of seint að leggja fram tillögu þess efnis ef miðað er við að alþingiskosningar fari fram 29. október.

„Ég er efins um að það takist að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð flugvallarins og alþingiskosningar á sama tíma ef kjördagur 29. október stendur,“ segir Þorsteinn en hann telur heppilegra að kosið verði á sama tíma.

„Því fylgir ákvæðið hagræði að kjósa á sama tíma og gengið verður til þingkosninga en hvort sem af því verður eða ekki er afstaða okkar skýr til þess að þjóðin fái að segja sína skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar.“

Ekki háð túlkun

Kosning um framtíð Reykjavíkurflugvallar bindur hvorki hendur Alþingis né Reykjavíkurborgar þar sem um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu væri að ræða. Þorsteinn segir því mikilvægt að niðurstaðan verði hafin yfir allan vafa.

„Þess var sérstaklega gætt að spurningin sem lögð verður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu um flugvöllinn sé ekki háð túlkun. Niðurstaðan verður að vera skýr.“

Spurður af hverju Alþingi taki ekki sjálft afstöðu til staðsetningar Reykjavíkurflugvallar segir Þorsteinn nú þegar liggja fyrir frumvarp Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um færslu skipulagsvalds alþjóðaflugvalla til ríkisins.

„Alþingi hefur vald til að grípa inn í þá atburðarás sem átt hefur sér stað vegna staðsetningar Reykjavíkurflugvallar. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu myndi hins vegar styrkja þingið í viðleitni sinni að beita sér í málinu eða láta það kjurt liggja, allt eftir niðurstöðu kosningarinnar.“

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, tekur í sama streng og segir æskilegt að sameina fólk um farsæla lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Mannréttindamál

„Vandinn er að finna leið til að sameina fólk um lausn varðandi flugvöllinn en það hefur verið pólitískt ósætti og ólík sjónarmið innan allra flokka, sem hefur staðið því fyrir þrifum. Þess vegna hef ég alltaf horft til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi höggva á þann hnút,“ segir Ögmundur en hann segir skyldur höfuðborgarinnar vera miklar þar sem til hennar leiti fólk af öllu landinu í opinbera þjónustu sem sátt hefur verið um að staðsett sé í höfuðborginni.

„Það varðar grundvallarmannréttindi og jafnræði með þegnum landsins að hér sé jafn aðgangur að t.d. heilbrigðisþjónustu árið um kring enda var lögð áhersla á það í samskiptum ríkisins og Reykjavíkurborgar að ekki kæmi til lokunar hinnar svokölluðu neyðarbrautar nema búið væri að tryggja opnun sambærilegrar brautar annars staðar á suðvesturhorni landsins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert