Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tilkynningar um tvær nauðganir í nótt. Var farið með þolendur á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi fyrir þolendur kynferðisofbeldis.
Þetta kom fram í útvarpsfréttum Rásar 2 í hádeginu. Er rannsókn lögreglu sögð vera á frumstigi.
Talið er að vel á annað hundrað þúsund manns hafi lagt leið sína í miðborg Reykjavíkur í gær og fram á kvöld, að því er segir í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu.
Lögreglan segir að aðsókn hafi verið afar jöfn og þétt frá hádegi og í allt kvöld. Þá gekk umferð greiðlega frá miðborginni strax eftir flugeldasýninguna.
Mikill erill var hjá lögreglu en alls var 131 mál skráð í dagbók lögreglu frá klukkan fimm síðdegis í gær til klukkan fimm í morgun.