Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fyrir skömmu tuttugu manns vegna fíkniefnasölu á netinu. Samhliða því var um 80 sölusíðum á samfélagsvefnum Facebook lokað í samstarfi við vefinn. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Haft var eftir Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að í aðgerðunum hafi lögreglan lagt hald á töluvert magn fíkniefna. Aðallega kannabis sem sé það efni sem mest er selt af á netinu.
Friðrik Smári sagðist gera ráð fyrir að nýjar síður væru settar upp jafnóðum og öðrum væri lokað en lögreglan hefði ekki mannafla til að fylgjast stöðugt með síðunum.