Það er mikilvægt að draga línu í sandinn og nota það frumvarp sem liggur fyrir sem stökkpall inn í framtíðina til að gera verulegar breytingar á landbúnaðarkerfinu. Þetta sagði Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, í Kastljósi kvöldsins þar sem búvörusamningarnir voru til umræðu.
Jón var m.a. spurður að því hvort ekki væri í raun verið að fresta því að taka á málum í þrjú ár og hvort samningsferlið hefði ekki verið meingallað. Hann svaraði því til að jú, vissulega hefði mátt standa öðruvísi að málum en benti jafnframt á að í endurskoðunarferlinu yrði efnt til víðtæks samráðs meðal neytenda, aðila vinnumarkaðarins og atvinnulífsins.
Sagði Jón að boðað yrði til þjóðarsamtals um heilbrigðan og sterkan íslenskan landbúnað til lengri tíma. Hins vegar væri tími til kominn að draga línu í sandinn og endurnýja samninginn sem hefði átt að gilda í 6-7 ár en væri nú á tólfta ári.
Björt Ólafsdóttir, sem einnig á sæti í atvinnuveganefnd, sagði alveg ljóst að á Íslandi þyrfti að ríkja gjöfull og góður landbúnaður. En vegna þess að hér færi mikill peningur úr vösum skattgreiðenda í meðlag með landbúnaðinum skipti máli hvernig staðið væri að málum.
Hún sagði að það hefði ekki verið haft að leiðarljósi að útdeila fjármunum með sanngirni og samkvæmt samkeppnissjónarmiðum, og að ekki hefði verið haft samráð við lykilaðila á borð við neytendur.
Björt sagði Bjarta framtíð ekki geta samþykkt að málum yrði slegið á frest í þrjú ár; að bíða í þrjú ár eftir samtali um búvörusamningana. Það skipti máli að tekið væri á málum, t.d. fyrir aðila í mjólkurafurðavinnslu.
Björt sagði að í samningaferlinu hefði hvorki verið talað við kóng né prest, aðeins ráðherrar og bændur hefðu átt aðkomu að því samtali sem fór fram. Það þýddi ekkert að ganga fram hjá heilli þjóð þegar um væri að ræða samninga sem kostuðu 13 milljarða á ári hverju.
„Þetta er bara gamla Ísland, svona voru hlutirnir gerðir,“ sagði Björt og ásakaði stjórnarflokkana um að vilja viðhalda umræddu vinnulagi. Þeir vildu fyrst lögfesta það sem þeir hefðu ákveðið og senda það síðan inn í framtíðina þar sem óvíst væri hvað yrði.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var einnig meðal viðmælenda í þættinum. Sagði hann landbúnaðinn þurfa á aukinni samkeppni að halda og gagnrýndi samningsferlið.
Hann gagnrýndi einnig tillögur er varða fyrirliggjandi tollasamning við Evrópusambandið og sagði m.a. stefnt að því að nýta hann til að bregðast við skorti á innlendum markaði, sem hefði aldrei verið markmiðið. Það hefði þvert á móti verið að auka vöruúrval. Þá sagði hann tillögur er vörðuðu það að bjóða tollfrjálsa kvótann upp fjórum sinnum á ári myndu leiða til aukins kostnaðar og minna afhendingaröryggis, sem myndi bitna á neytendum.
Nefndi Ólafur einnig strangari heilbrigðiskröfur varðandi innflutning sem þó kæmi frá Evrópusambandinu og sagði að þarna væri verið að þvælast fyrir árangri tollasamningsins og koma í veg fyrir að neytendur nytu hans.
Hvað varðaði tollasamninginn sagði Jón að um væri að ræða stærsta samning sem gerður hefði verið og að hann fæli í sér miklar breytingar á því magni sem heimilt yrði að flytja inn til landsins. Hann sagðist vita að Félag atvinnurekenda vildi gera þetta með öðrum hætti og að margar skoðanir væru uppi varðandi samninginn en aðalatriðið væri að neytendur myndu finna fyrir auknu vöruúrvali og breyttu verðlagi.
Sagði hann um stórt skref að ræða en ljóst væri að enginn myndi vinna fullnaðarsigur í málinu.
Spurð að því hvernig Björt framtíð myndi beita sér við umræður um búvörusamningana sagði Björt að sér fyndist ekki sómi að því að afgreiða málið á hundavaði. Björt framtíð hygðist ekki standa fyrir málþófi en myndi þó beita sér fyrir því að málið færi ekki í gegn.
Hún sagði marga hafa kvartað yfir samráðsleysi, m.a. ríkisstofnanir, og að þingið þyrfti að gera miklu betur fyrir fólkið í landinu. Ekki kvitta undir og samþykkja eitthvað til þriggja ára án þess að vita hvað tekur við.