Kötturinn drapst af völdum eitrunar

Frá Hveragerði.
Frá Hveragerði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Krufning á ketti sem drapst með dularfullum hætti í Hveragerði fyrr í mánuðinum gefur sterkar vísbendingar um að hann hafi drepist af völdum eitrunar eftir að hafa innbyrt frostlög eða sambærilegt efni. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.

Frétt mbl.is: Dularfullur kattadauði í Hveragerði

Sambærilegt mál kom upp í sveitarfélaginu á sama tíma á síðasta ári þegar nokkrir kettir drápust eftir að hafa étið fiskiflök sem sprautuð höfðu verið með frostlegi. Óttuðust því margir bæjarbúa að kattaníðingurinn væri kominn aftur á kreik.

Í samtali við mbl.is fyrir tíu dögum sagði Oddur að líkur væri á því að annar köttur hefði drepist af völdum eitrunar ásamt þeim sem var krufinn, en eigendur þess kattar hefðu ekki aðhafst neitt í málinu. Töldu þau þó dauða kattar síns hafa verið dularfullan.

Að sögn Odds hafa ekki fleiri mál komið upp síðan málið rataði í fjölmiðla en lögreglu barst þó nokkrar ábendingar sem hafa þó ekki leitt til neinnar niðurstöðu í málinu. Hann vildi ekki gefa upp hvers eðlis ábendingarnar voru, en segir þær vera ólíkar og ekki beinast að sömu atriðunum. Rannsókn lögreglu á dularfullu kattadauðunum í fyrra bar heldur ekki árangur.

Spurður hvort fiskiflök hafi fundist í bæjarfélaginu líkt og þau sem voru sprautuð með frostlegi í fyrra svarar Oddur neitandi. Hann hvetur þá sem gætu haft upplýsingar um málið að hafa samband við lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert