Félagið L55 ehf. hefur óskað eftir að rífa niður tvö hús að Laugavegi 55 í Reykjavík og byggja þar nýbyggingu fyrir verslun og gististað í flokki 5, en það er gististaður með bar og/eða veitingaaðstöðu þar sem áfengi er veitt. Í dag er í húsinu veitingastaður, verslanir og ein íbúð.
Í umsókn félagsins kemur fram að um sé að ræða tvö hús í dag, en annað þeirra er vörugeymsla. Er óskað eftir að fá að rífa þau, en samkvæmt Þjóðskrá er samanlögð stærð húsanna 643 fermetrar. Voru húsin byggð árið 1924.
Samkvæmt umsókninni er óskað eftir að byggja 2.071 fermetra hús í stað þeirra sem verða rifin, en meðal annars er gert ráð fyrir að gististaðurinn geti hýst 116 gesti.
Bæði beiðnunum um niðurrifið og nýbygginguna var frestað og var málinu vísað til skipulagsfulltrúa.