Gunni berst í nóvember í aðalbardaganum

Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Árni Torfason

Bardagakappinn Gunnar Nelson er kominn með nýjan bardaga, en hann barðist síðast í maí á þessu ári þegar hann vann Albert Tumenov. Næsti andstæðingur Gunnars er Dong Hyun Kim og munu þeir mætast á bardagakvöldi í Belfast í Norður-Írlandi 19. nóvember. Er áformað að bardagi þeirra verði aðalbardagi kvöldsins.

Það er vefsíðan MMA fighting sem greinir frá málinu, en þar kemur fram að verið sé að leggja lokahönd á að skipuleggja alla bardaga kvöldsins.

Nelson sigraði sem fyrr segir Tumenov í síðasta bardaga sínum, en hann hefur nú sigrað 15 bardaga og tapað tveimur á bardagaferli sínum. Síðan hann byrjaði að berjast undir merkjum UFC hefur hann sigrað í 6 bardögum og tapað í tveimur.

Kim er nokkuð reyndur og hefur hann á ferli sínum sigrað í 21 bardaga og tapað í 3. Þá var einn bardagi jafntefli. Kim keppti síðast í nóvember á síðasta ári þegar hann sigraði Dominic Waters. Hann átti að berjast við Neil Magny á UFC 202-kvöldinu sem fór fram um daginn, en þurfti að hætta við vegna minni háttar meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert