Fyrsta rafmagnaða ferðin til Ísafjarðar

Jónas Guðmundsson (t.h.) og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri á Stykkishólmi, halda …
Jónas Guðmundsson (t.h.) og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri á Stykkishólmi, halda á merki sem Vegagerðin hefur hannað til að merkja hleðslustöðvar fyrir rafbíla. ljósmynd/Facebook-síða ferðarinnar

Félagarnir Jónas Guðmundsson og Jón Jóhann Jóhannsson freista þess nú að verða fyrstir til að aka á rafbíl frá Reykjavík til Ísafjarðar. Tilgangur ferðarinnar er að vekja athygli á skorti á hleðslustöðvum á landsbyggðinni. Jónas segir að hann valdi því að ferðalaginu ljúki að líkindum ekki fyrr en á morgun.

Fararskjóti þeirra er KIA Sol-rafbíll en hann kemst um 120-140 kílómetra á hleðslu eftir aðstæðum og árstíma. Jónas er formaður Samgöngufélagsins, einkafélags hans um ýmis verkefni í samgöngumálum, en Jón er eigandi bílsins. Ferðalagið kalla þeir „rafmagnaða ferð til Ísafjarðar“.

„Það er að sýna að þetta sé hægt. Þetta er fyrsta ferðin og það er ekki verra. Tilgangurinn er mikið til að benda á að það þurfi að vera aðgengi að hleðslustöðvum eða bara rafmagni miklu víðar,“ segir Jónas, spurður um markmið ferðalagsins sem hófst í morgun.

Utan höfuðborgarsvæðisins og Eyjafjarðar er lítið um möguleika fyrir rafbílaeigendur að komast í hleðslu og engar hraðhleðslustöðvar eru utan suðvesturhornsins og Eyjafjarðar. Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Jónasi voru þeir staddir á Stykkishólmi þar sem þeir ætluðu að taka ferjuna Baldur yfir Breiðafjörð.

„Ég spurði fólk á Stykkishólmi hvar ég gæti sett í samband og fólk bara vissi það ekki. Þannig er það víða um land,“ segir Jónas en þeir komust á endanum í venjulega rafmagnstengingu í bænum og í ferjunni til að fleyta þeim áfram þegar á Vestfirði er komið.

Ómögulegt án hraðhleðslu í Borgarnesi

Ef ekki væri fyrir hraðhleðslustöð á Borgarnesi segir Jónas að ferðalagið vestur væri líklega ógerlegt. Þar hlóðu þeir á 20-25 mínútum. Á norðvesturhorninu sé engin stöð á milli Borgarness og Akureyrar.

„Ef hún hefði ekki verið þá væri þetta eiginlega vonlaus ferð. Hún fleytti okkur áfram í Stykkishólm. Ef maður hefði þurft að stinga í samband í heimilistengil þá hefði bara verið gisting þar eða áður en maður kæmi í Stykkishólm,“ segir Jónas.

Félagarnir komast að líkindum ekki lengra en til Þingeyrar í kvöld áður en þeir þurfa að hlaða bílinn aftur. Þar er aðeins venjuleg rafmagnstenging í boði og því tekur það 10-12 tíma að fullhlaða bílinn.

Jónas hvetur minni sveitarfélög og samgöngustöðvar út á landi til að setja að minnsta kosti upp minni hleðslustöðvar því með þeim sé hægt að hlaða rafbíl um helmingi hraðar en með venjulegri rafmagnstengingu. 

„Þetta er framlag mitt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ég segi eins og Ragnar Axelsson [ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is] þegar barnabörnin spyrja mig af hverju mín kynslóð gerði ekkert þá get ég sagst hafa reynt að leggja eitthvað af mörkum með þessu,“ segir Jónas.

Jónas (t.v.) og Jón Jóhann Jóhannsson (t.h.) með KIA Sol-bílnum …
Jónas (t.v.) og Jón Jóhann Jóhannsson (t.h.) með KIA Sol-bílnum þegar þeir lögðu af stað frá Reykjavík í morgun. ljósmynd/Facebook-síða ferðarinnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert