Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, verður ekki á lista flokksins í komandi kosningum. Þetta varð ljóst um leið og úrslit lágu fyrir á tvöföldu kjördæmaþingi framsóknarmanna í Reykjavík fyrr í dag.
Þorsteinn hafði boðið sig fram í 1. sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi norður en svo fór að Karl Garðarsson alþingismaður hlaut 57% atkvæða í sætið, en Þorsteinn 43%. Þar sem hann bauð sig ekki fram í önnur sæti tekur hann ekki sæti á listanum.
Í samtali við mbl.is segist Þorsteinn hafa vitað fyrir fram að mjótt yrði á munum.
„Það lá alltaf fyrir að það yrði svo. Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að þetta gæti farið á hvorn veginn sem var. En þetta varð niðurstaðan og ég sætti mig við hana.“
Í síðustu alþingiskosningum var Þorsteinn þriðji maður á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, en ákvað að þessu sinni að bjóða sig fram í höfuðborginni.
„Ég hafði fengið veður af nokkrum áhuga á því að ég myndi gera það, auk þess sem tveir reynslumiklir þingmenn eru að hætta, þau Frosti [Sigurjónsson] og Sigrún [Magnúsdóttir], og ég vildi gera mitt til að fylla upp í það skarð.
Þá hef ég, eins og margir aðrir, miklar áhyggjur af höfuðborg Íslands og tel að henni veitti ekki af vinum á þessum tímum.“
Spurður hvað taki nú við segir hann það ekki víst.
„Eitthvað skemmtilegt hugsa ég. Ég hef tæplega sextíu ára reynslu af því að vera ekki á þingi, svo líf mitt hefur ekki alveg snúist um það. Ég kann það mjög vel að vera ekki á þingi. Þetta er eins og með allt annað í lífinu, maður hættir í einhverju og byrjar á einhverju öðru.“