Jarðskjálftahrina í Kötluöskjunni

Katla hefur skolfið hressilega í nótt.
Katla hefur skolfið hressilega í nótt. Af vef Veðurstofu Íslands

Jarðskjálftahrina hófst í Kötluöskjunni í nótt og hafa tveir jarðskjálftar mælst yfir fjórum stigum, samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.  Þessir skjálftar eru þeir stærstu í Mýrdalsjökli frá því nútíma mælingar hófust.

Skjálftahrinan hófst klukkan 01:41 norðarlega í Kötluöskjunni. Tveir skjálftar mældust yfir fjórum stigum. Sá fyrri, kl. 01:47:02, var 4,5 stig og sá seinni 20 sekúndum síðar 4,6 stig. Fáeinir skjálftar voru um þrjú stig.

Gunnar B. Guðmundsson, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að rólegt hafi verið á þessum slóðum undanfarnar klukkustundir en töluverður órói hefur verið á þessum slóðum undanfarið. Jarðskjálftahrinan í nótt hófst um hálf eitt leytið í nótt að sögn Gunnars. Hann segir stóru skjálftana vera með þeim stærstu sem mælst hafa á þessum slóðum.

Síðan í júlí hefur ítrekað verið varað við miklu jökulvatni í Bláfjallakvísl, sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Ferðafólk hefur verið hvatt til að gæta varúðar og sýna aðgát, þar sem vöð yfir ána gætu verið varhugaverð. 

Að sögn Gunnars hefur verið há rafleiðni í Múlakvísl og eins hefur verið viðvarandi leki úr einhverjum kötlum í sumar en enginn hlaup- né eldgosaórói fylgir þessum óróa eða skjálftum, segir hann. Þetta er snörp hina sem kom í nótt, bætir Gunnar við. 

Á annan tug skjálfta hafa mælst í kjölfarið. Enginn órói er sjáanlegur samfara þessum skjálftum. Stærstu skjálftar fundust í skálanum í Langadal. Nokkrir skjálftar urðu sunnar í öskjunni um klukkustund fyrr.

Áfram verður fylgst náið með framvindu mála, samkvæmt tilkynningu frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.

Seinast gaus Katla öflugu gosi fyrir 98 árum, eða árið 1918, en ómögulegt er að segja fyrir um hvenær næsta eldgos mun eiga sér stað í eldstöðinni.

Jarðskjálftahrina hófst norðarlega í Kötluöskjunni í nótt.
Jarðskjálftahrina hófst norðarlega í Kötluöskjunni í nótt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert