Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeir Olgeirsson eignuðust soninn Nóa Hrafn í fyrra en hann lést skömmu eftir fæðinguna vegna mistaka starfsfólks. Fæðingin tók langan tíma og við vaktaskipti þurftu þau að halda áfram baráttu fyrir því að fá lækni. Klukkutíma síðar var sonur þeirra látinn.
Fjallað verður um málið í Kastljósi í kvöld, rætt við foreldrana og sérfræðinga auk þess sem fulltrúi Landspítala ræðir málið. Fram kemur í umfjölluninni að þetta sé alvarlegasta mál sinnar gerðar á spítalanum en í Kastljósi í gær var birtur hluti af viðtali við foreldrana og eins á vef RÚV í morgun.
Sigríður Eyrún sagði að það hefði aldrei komið sérfræðingur til að meta þetta. „Við erum inni á spítala. Það er ekki eins og við höfum verið einhvers staðar uppi í sveit, einhvers staðar þar sem var ekki hægt að ná í lækni. Hann var í næsta herbergi. Það var aldrei kallað á hann.“
Vaktaskipti voru meðal ljósmæðra meðan á þessu stóð. Sigríður segir að fyrir og eftir þau hafi þurft að berjast fyrir því að fá lækni. Sú ljósmóðir sem tók við hafi þó séð fljótlega að ekki var allt í lagi. „Klukkutíma eftir að hún mætir í vinnuna var hann dáinn.“