Foreldrafélög fjögurra leikskóla Vesturbæjar Reykjavíkur lýsa yfir þungum áhyggjum af sparnaði hjá leikskólum borgarinnar. Foreldrafélög Vesturborgar, Grandaborgar, Hagaborgar og Sæborgar sendu í dag frá sér ályktun þar sem bent er á að leikskólar borgarinnar hafi á undanförnum árum þurft að skera verulega niður „og voru þeir ekki ofaldir fyrir,“ segir í ályktuninni.
„Foreldrar barna í leikskólum eru mjög uggandi yfir þessu ástandi enda liggur fyrir að boðaður niðurskurður á fjármagni til leikskólanna takmarkar starfsemi leikskólans, kemur í veg fyrir að fylla megi laus pláss og stefnir faglegu starfi í hættu,“ segir í ályktuninni.
Sjá einnig: Frétt mbl.is - Meðtók áhyggjur leikskólastjórnenda
Kemur þar enn fremur fram að foreldrar hafi áhyggjur af því að krafan um að skólarnir taki með sér halla síðasta árs yfir á næsta ár geri rekstur skólanna erfiðari. „Sú breyting sem gerð var þegar ákveðið var að færa skyldi hallarekstur á milli ára leiðir þannig til þess að verulega þarf að hagræða í starfsemi leikskólanna.“
Foreldrafélögin segja það blasa við foreldrum og öðrum aðstandendum barna að nú þegar hafi leikskólar borgarinnar úr litlu fé að moða og í ályktuninni benda foreldrarnir á að leikstjóraskólar hafi lýst því yfir að þeir séu búnir að skera niður inn að beini. „Þegar kemur að því að spara er mikilvægt að forgangsraða rétt. Við skorum á borgarstjórn að setja börnin í fyrsta sæti og hætta við niðurskurð hjá leikskólum borgarinnar.“