Börn líði ekki fyrir fjársveltan rekstur

Ljóst sé að leikskólar geti ekki starfað áfram í óbreyttri …
Ljóst sé að leikskólar geti ekki starfað áfram í óbreyttri mynd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldraráð og foreldrafélag leikskólans Laugasólar mótmæla því að börn þeirra verði látin líða fyrir fjársvelti í rekstri leikskóla Reykjavíkur og krefjast þess að forgangsraðað verði á nýjan hátt með aðbúnað þeirra og gæði skólastarfsins að leiðarljósi.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem foreldraráðið og foreldrafélagið senda frá sér. Segir þar að leikskólum Reykjavíkurborgar sé skylt að starfa eftir lögum og reglugerðum sem fram koma í gildandi aðalnámskrá fyrir leikskóla. Því sé nauðsynlegt að tryggja þeim eðlilegan rekstrargrundvöll.

Skora á stjórnvöld að endurskoða fjárhagsáætlun

„Eftir áralangan niðurskurð er nú komin upp sú staða að leikskólastjórnendur sjá sér ekki lengur fært að uppfylla þau námsskilyrði sem lög kveða á um. Líkt og fram kemur í áskorun leikskólastjórnenda til Reykjavíkurborgar þá er ljóst að ef leikskólar borgarinnar eiga að taka á sig halla frá síðasta skólaári þá geta þeir ekki starfað áfram í óbreyttri mynd.

Þá þarf annaðhvort að endurskoða lög og reglugerðir um fyrsta skólastigið eða að öðrum kosti draga verulega úr þeirri þjónustu sem leikskólarnir veita í dag,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Við skorum á stjórnvöld að endurskoða nú þegar fjárhagsáætlun fyrir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og tryggja leikskólum borgarinnar eðlilegan rekstrargrundvöll á grundvelli gildandi aðalnámskrár.“

Leikskólinn Laugasól stendur við Leirulæk í Laugardalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert