SAMFOK skora á borgaryfirvöld

Skólabörn í Reykjavík leika sér í frímínútum.
Skólabörn í Reykjavík leika sér í frímínútum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Stjórn SAMFOK, samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, hefur skorað á borgaryfirvöld að grípa til aðgerða til að ekki komi til alvarlegrar skerðingar á þjónustu í  grunnskólum borgarinnar.

Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að borgaryfirvöld skuli forgangsraða í þágu barna og að skólarnir hafi nú þegar búið við of þröngan kost of lengi.

Skólastjórar í grunnskólum Reykjavíkurborgar lýstu fyrir skömmu yfir verulegum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu grunnskólanna í borginni sem leitt hafi til skertrar þjónustu við nemendur.

Frétt mbl.is: Rekstur grunnskóla „óviðráðanlegur“

Geta ekki uppfyllt lögboðnar skyldur

„Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur hefur síðastliðið ár ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af því að frekari niðurskurður í skólakerfinu muni leiða til þess að skólar geti ekki uppfyllt lögboðnar skyldur sínar. Ályktanir skólastjórnenda og kennara nú renna stoðum undir þær áhyggjur,“ segir í áskorun samtakanna.

Menntamál sameiginlegt forgangsverkefni

„SAMFOK vill minna á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nýverið sammælst um að gera menntamál að sameiginlegu forgangsverkefni sínu til ársins 2020 eins og fram kemur í skýrslunni „Skólar og menntun í fremstu röð“. Útgjaldaaukning borgarinnar vegna skólamála hefur, eins og haft er eftir borgarstjóra, fyrst og fremst komið til vegna launahækkana og fjölgunar barna,“ segir í áskoruninni.

„Þrátt fyrir að í skólunum starfi ennþá fjöldi hæfs fagfólks sem heldur uppi starfinu við erfiðar aðstæður þá er ljóst að markmið þessa verkefnis munu ekki nást og skólakerfið verður ekki endurreist nema sett verði aukið fjármagn í innra starf.“

Frétt mbl.is: „Algjörlega komið að þolmörkum“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert