52 af 64 leikskólum borgarinnar tóku með sér halla frá fyrra ári yfir á þetta rekstrarár. Ólafur Brynjar Bjarkason, leikskólastjóri á Hagaborg, segir að töluvert margir leikskólar séu þegar komnir í mínus á þessu ári og þurfi því að vinna upp slæma rekstrarstöðu tveggja ára.
Stjórnendur leikskóla skoruðu á borgarstjóra í gær að endurskoða fjárveitingar til leikskóla og benda á hvar leikskólar mættu skera niður því að þeir sæju ekki að hægt væri að skera meira niður.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að báðum skólastigum sé hlíft í þeim hagræðingaraðgerðum sem eigi sér stað í borginni núna. Skólamálin séu hins vegar það stór þáttur af heildarútgjöldunum að ekki sé alveg hægt að skilja þau eftir, segir hann í umfjöllun um málefni leikskólanna í borginni í Morgunblaðinu í dag.