Frumvarp til að taka á bankabónusum

Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir
Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir mbl.is/Golli

Níu þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram lagafrumvarp fyrir Alþingi þar sem koma á í veg fyrir ofurbónusa til eignarhaldsfélaga gömlu bankanna. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að gerð verði breyting á lögum um fjármálafyrirtæki þannig að undir þau falli einnig „félög sem hafa eða hafa haft leyfi til reksturs fjármálafyrirtækis en tekin hafa verið til slitameðferðar og félög sem fara með eignir sem eru eða voru í eigu slíkra félaga“.

Með þeim breytingum myndu lög um fjármálafyrirtæki einnig eiga um eignarhaldsfélög Glitnis, Kaupþings og LBI, en þau hyggjast öll greiða starfsmönnum sínum milljarða bónusa og hefur það vakið mikla umræðu um málið undanfarna daga.

Í lögum um fjármálafyrirtækjum kemur fram að kaupauki til starfsmanns megi ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að fyrir liggi að þeir bónusar sem eignarhaldsfélög gömlu bankanna ætli að greiða starfsmönnum sínum séu að mati flutningsmanna tímaskekkja sem bregðast verði við. 

Segir þar að stífar reglur séu um bónusa í fjármálafyrirtækjum og það sé vegna neikvæðra áhrifa og reynslu hérlendis og erlendis af slíkum launa- og hvatakerfum í kjölfar bankahrunsins. „Það eru því ríkir almanna­hagsmunir að takmarka slíka bónusa, einnig í ljósi þess að þeir munu ógna stöðugleika og friði á vinnumarkaði,“ segir jafnframt í greinargerðinni.

Flutningsmenn tillögunnar eru Helgi Hjör­v­ar, Árni Páll Árna­son, Katrín Júlíus­dótt­ir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardótt­ir, Ólína Kjerúlf Þor­varðardótt­ir, Sigríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, Val­gerður Bjarna­dótt­ir og Össur Skarp­héðins­son.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert