Bardagamaðurinn Gunnar Nelson sem æfir hjá Mjölni mætir Kóreubúanum Dong Hyun „Stun Gun“ Kim í aðalbardaga UFC-bardagakvöldsins sem fram fer í Belfast á Norður-Írlandi 19. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UFC-bardagasamtökunum.
Kim er í 10. sæti á lista bestu bardagamanna í veltivigt, en Gunnar er í 12. sæti. Kim er meðal öflugustu bardagamanna Asíu í blönduðum bardagalistum (MMA) í dag og hefur verið atvinnumaður í rúmlega 12 ár. Hann er með 21 sigur og 3 töp á ferlinum og hafa þau komið á móti þeim bestu í þyngdarflokkinum, núverandi UFC-meistara, fyrrverandi UFC-meistara og Demian Maia sem af mörgum er talinn eiga heimtingu á næsta titilbardaga.
Haraldur Nelson, umboðsmaður og faðir Gunnars, segir í tilkynningu að Gunnar sé afar spenntur fyrir að mæta Kim fyrir framan írska áhorfendur, en Gunnar nýtur mikils stuðnings þar í landi.