Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er að safna liði sem mun fylgjast grannt með því hvernig núverandi stjórnarflokkar sinna heilbrigðiskerfinu fyrir kosningar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Kára í Fréttablaðinu í dag.
„Ef þið gerið ekki raunverulegt átak, sem ætti að vera auðvelt fyrir ykkur vegna þess að fjárhirslur ríkisins eru að springa af peningum og meiri uppgangur í efnahagslífi þjóðarinnar en í nokkurn annan tíma, þá munum við gera allt sem við getum til þess að sannfæra kjósendur um að hunsa ykkur.
Það er nefnilega ekki líklegt að þeir sem treysta sér ekki til að setja fé í heilbrigðiskerfið rétt fyrir kosningar, þegar þeir gætu nýtt sér það til þess að sækja atkvæði, muni gera það að kosningum loknum. Við munum einnig gera okkar besta til þess að sjá til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir heiti stuðningi við heilbrigðiskerfið á þann hátt að það verði ekki auðveldlega svikið. Við fylgjumst með því hvernig haldið er utan um velferðarkerfið í heild sinni, bæði það sem er á ábyrgð ríkis og bæjar og svo stöndum við vaktina að kosningum loknum,“ segir í grein Kára.
Kári biður Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra afsökunar í greininni en á laugardaginn birtist aðsend grein eftir Kára í Morgunblaðinu þar sem hann fjallaði um heilbrigðiskerfið.
„Því bið ég þig afsökunar, ekki á því sem ég sagði um þig, vegna þess að það er allt meira og minna satt, heldur á því að ég skyldi hafa þig einan í mynd í stað þess að láta sjást í aðra.
Ég hefði til dæmis átt að sýna félagshyggjutröllið og borgarstjórann hann Dag B. Eggertsson sem ríkir í umboði Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Besta flokksins: Grunnskólar borgarinnar eru þær stofnanir þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur menntun sína sex ára að aldri. Það er í grunnskólunum sem börnin eru mótanlegust og móttækilegust fyrir hollum áhrifum. Góður grunnskóli er líka sú stofnun sem getur hlúð að börnum sem búa við erfiðar aðstæður heima fyrir. Grunnskólar Reykjavíkur eru hins vegar illa mannaðir og sveltir af fé að því marki að skólastjórar þeirra hafa mótmælt svo kröftuglega að búast má við að næsta skref þeirra verði vopnuð bylting.
Og svo eru það leikskólarnir þar sem gullin okkar og gimsteinar, blómin okkar allra, dvelja í fyrsta sinn utan heimilis og undir umsjón vandalausra. Leikskólar Reykjavíkur búa svo illa að þeir geta ekki einu sinni séð börnunum fyrir almennilegum mat.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og læknir, sættir sig við að leikskólabörn í hans umdæmi fái ekki almennilega næringu á meðan borgin eyðir fé í að mjókka Grensásveg fyrir hjólreiðamenn, til dæmis. Þetta er allt spurning um forgangsröð og staða grunnskólanna og leikskólanna í þeirri röð er í engu samræmi við vilja fólksins í borginni.
Það er alltaf þrautin þyngri að skilja Dag þegar hann tjáir sig munnlega, en þegar hann svaraði fyrir gagnrýni á ástand skólanna í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu á þriðjudaginn held ég að hann hafi sagt að hún væri ósanngjörn og að það væri búið að laga flest sem laga þyrfti,“ segir enn fremur í grein Kára í Fréttablaðinu í dag.