Milljarða tjón fyrir skattgreiðendur

Brynjar sagði að farið hefði verið gegn öllum ráðleggingum.
Brynjar sagði að farið hefði verið gegn öllum ráðleggingum. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði það grafalvarlegt ef rétt væri að stjórnvöld og fjármálaráðuneytið hefðu ekki verið upplýst um öll þau gögn sem fyrir lágu um stöðu Sparisjóðs Keflavíkur, þegar ákvörðun var tekin um að reyna að halda honum á floti á síðasta kjörtímabili. Sú ákvörðun hafi haft í för með sér milljarða tjón fyrir skattgreiðendur.

Rætt var um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna á Alþingi í gær. Tilefnið var nýútkomið álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á skýrslunni.

Ögmundur Jónasson, formaður þeirrar nefndar, sagði í ræðu sinni að ljóst væri að víða hefðu verið brotalamir í rekstri sparisjóðanna fyrir fall þeirra. Allt hefði miðast að því að gera þá sem líkasta bönkunum og að þeir hefðu með því fjarlægst gömlu gildi sparisjóðanna.

Sparisjóðirnir teknir út fyrir sviga

Brynjar, sem einnig á sæti í nefndinni, benti á að við endurreisn fjármálakerfisins hefði önnur leið verið farin í tilviki sparisjóðanna, þeir hefðu í raun verið teknir út fyrir sviga.

„Við í nefndinni einblíndum svolítið á gerðir stjórnvalda í kringum Sparisjóðinn í Keflavík, sem átti samkvæmt pólitískri ákvörðun að vera grunnstoð í endurreisn sparisjóðakerfisins. Niðurstaða okkar er að hér hafi verið gerð mistök, sem kostað hafi skattgreiðendur mikið fé, meira heldur en þurfti, ef farin hefði verið sama leið og farin var við endurreisn annarra fjármálafyrirtækja.“

Brynjar sagði að eðlilegt væri að athuga hvort nægar forsendur hefði verið fyrir pólitískum ákvörðunum eins og þessari.

„Það liggur fyrir, þegar rakin er þróun mála Sparisjóðsins í Keflavík, frá mars 2009, og síðar SpKef sparisjóðs, að staða hans versnaði frá mánuði til mánaðar. Í upphafi var ljóst að eiginfjárhlutfall sjóðsins var undir lágmarki, samkvæmt 84. grein laga um fjármálafyrirtæki, og þá hafði FME gert skýrslu í september 2008 um útlána- og markaðsáhættu sjóðsins, þar sem niðurstaðan gaf mjög dökka mynd af stöðu hans. FME gaf þá sparisjóðnum ítrekaðan frest til að uppfylla lögbundnar kröfur um eiginfjárhlutfall.“

Samruni SpKef og Landsbankans var kynntur á blaðamannafundi í mars …
Samruni SpKef og Landsbankans var kynntur á blaðamannafundi í mars árið 2011. mbl.is/Þórður

Staða sjóðsins fór sífellt versnandi

Þegar skoðuð væru öll gögn sem legið hefðu fyrir eftir vinnu Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, um stöðu sjóðsins, væri ljóst að staða hans fór sífellt versnandi.

„Ítrekað engu að síður, voru veittir frestir. Útilokað er að réttlæta það með nokkrum hætti, að mínu viti, að FME skyldi veita sex mánuði í viðbót eftir sex mánaða framlengingu á undanþágunni. Án þess að geta gefið nokkur haldgóð rök fyrir því þegar fulltrúar FME komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.“

Brynjar sagði það ekki ljóst hvort þessi afstaða Fjármálaeftirlitsins hefði haft áhrif á pólitíska ákvörðunartöku, en margir væru þó á þeirri skoðun að því hefði verið öfugt farið, hin pólitíska afstaða hefði haft áhrif á ákvörðun FME.

„Ekki ætla ég að vera neinn dómari í því. En það breytir því ekki að þarna er farið gegn öllum ráðleggingum, öllum upplýsingum sem lágu fyrir um stöðu sjóðsins.“

Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra þegar ákvörðun var tekin um …
Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra þegar ákvörðun var tekin um málefni sjóðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vill skoða sameiningu Seðlabankans og FME

Mönnum hafi mátt vera það kunnugt að þessi áframhaldandi taprekstur, mánuð eftir mánuð, myndi á endanum hafa í för með sér tjón fyrir skattgreiðendur. Í skýrslu rannsóknarnefndar komi fram að tjónið hafi verið í kringum 25 til 26 milljarðar.

„Það sem er ámælisvert er það, að stjórnvöld virðast hafa látið liggja í léttu rúmi hver niðurstaðan yrði, vegna þess að það hafi verið einhvers konar pólitísk ákvörðun um að gera þetta.“

Benti hann á að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefði sagt fyrir rannsóknarnefndinni að ef hann hefði vitað af skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá september 2008, þá hefði verið gripið í taumana strax.

„Þannig það virðist vera að stjórnvöld og ráðuneytið hafi ekki verið upplýst um öll gögn sem lágu fyrir um stöðu sjóðsins. Það er auðvitað grafalvarlegt ef rétt er.“

Brynjar sagði að lokum að málið gæfi efni til að endurskoða hvort sameina ætti Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, til að hafa eftirlit og upplýsingar undir einu þaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka