Moody's hækkar lánshæfi ríkissjóðs um tvö þrep

Moody's
Moody's mbl.is/Hjörtur

Lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s Investor Service hefur hækkað lánshæfismat ríkissjóðs upp um tvö þrep, úr Baa2 í A3, með stöðugum horfum. Segir í tilkynningu frá Moody's að hækkunin endurspegli hraðan og víðtækan framgang í endurreisn Íslands eftir bankahrunið árið 2008.

Í júní var tilkynnt að fyrirtækið ætlaði að endurmeta lánshæfi ríkissjóðs með hækkun í huga. Í tilkynningunni kom fram að stjórnvöld hefðu náð umtalsverðum árangri við að snúa efnahagslífinu, fjármálakerfinu og opinberum fjármálum á sjálfbæra braut. Þá kom fram að einn lykilþáttur til skoðunar við mat á hækkun lánshæfiseinkunnar væri hvort ný fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir hið opinbera, ásamt endurbótum sem gerðar hafa verið á skattakerfinu, muni bæta sjálfbærni opinberra skulda til meðallangs tíma.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir á heimasíðu sinni að með hliðsjón af samskiptum sínum við Moody's og tilkynningu félagsins megi rekja hækkunina til viðsnúnings í rekstri ríkissjóðs, bættri skuldastöðu sem hefur lækkað úr 85% af vergri landsframleiðslu árið 2011 niður í 50% á þessu ári. Þá tiltekur ráðuneytið samkomulag við slitabú föllnu bankanna, vinnu við lausn á langtímaskuldbindingum sveitarfélaga vegna lífeyrisskuldbindinga og að lokum lög um stefnumörkun um opinber fjármál til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert