Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að um haustið 2008 hafi stjórnmálamenn þurft að taka stórar ákvarðanir undir gríðarlegum þrýstingi, án þess að heildarmynd vandans sem við væri að glíma hafi verið nokkrum ljós.
Rætt var á Alþingi í gær um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Tilefnið var nýútkomið álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á skýrslunni.
„Ákvarðanir sem síðar eru teknar, og varða þá meðal annars örlög sparisjóðanna, eru auðvitað ekki teknar undir sömu kringumstæðum. Þetta held ég að menn verði að hafa í huga,“ sagði Birgir.
Því næst vék hann máli sínu að Sparisjóðnum í Keflavík, og sagði ekki nægilega traustar forsendur hafa verið fyrir því að leyfa áfram rekstur sjóðsins á sínum tíma.
„Það sem kemur fram í skýrslunni er að rótin að því að slíkar ákvarðanir voru teknar var pólitískur vilji til þess að viðhalda sparisjóðakerfinu. En það eru auðvitað takmörk fyrir því hvaða ákvarðanir menn geti réttlætt á pólitískum forsendum, ef mjög sterk rök hníga í aðra átt, og upplýsingar liggja fyrir sem gera eiga mönnum ljóst að þeim markmiðum sem stefnt er að verður ekki náð.“
Ítrekaði Birgir gagnrýni Brynjars Níelssonar og benti á að þessi ákvörðun fjármálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar hefði einnig mætt gagnrýni í tíð síðustu ríkisstjórnar.
„Það má segja að mjög margt í þessari skýrslu renni stoðum undir þá gagnrýni sem þá var haldið á lofti.“
Birgir viðurkenndi að á síðasta kjörtímabili hefðu þingmenn allra flokka tekið þátt í umræðum um framtíð sparisjóðakerfisins og lýst yfir áhuga sínum á að viðhalda því.
„En ég hygg að þegar við tókum þátt í þeim umræðum í þingsal og létum ummæli í þeim efnum falla höfum við ekki haft aðgang að sömu upplýsingum, skýrslum og greiningum og þeir sem voru við stjórnvölinn.“
Að lokum sagði Birgir að þótt hægt væri að deila um hversu mikið tjón í milljörðum talið hefði hlotist af ákvörðunum af þessu tagi, „verður engu að síður að horfast í augu við að það geti verið skaðlegt fyrir stjórnmálamenn að ætla að taka ákvarðanir undir þessum kringumstæðum á forsendum rómantískra hugmynda um að hægt sé að viðhalda kerfi, sem einu sinni var, og einu sinni þjónaði tilgangi en er óvíst að eigi við með sama hætti í breyttu umhverfi“.
Guðlaugur Þór Þórðarson tók einnig til máls um sparisjóðinn og sagði það ekki vera í fyrsta skipti, allt síðasta kjörtímabil hefði hann ásamt fleiri þingmönnum gagnrýnt ákvarðanir stjórnvalda en gert hefði verið lítið úr þeim áhyggjum.
„Þegar niðurstöður skýrslunnar eru skoðaðar kemur í ljós að allar þær áhyggjur sem við höfðum, og allar þær athugasemdir sem við settum fram, reyndust því miður réttmætar. Má í raun segja að ef eitthvað var vanmátum við hvað var í gangi.
Allir vöruðu við þeirri leið sem farin var af hálfu síðustu ríkisstjórnar. Og málið er mjög einfalt; vegna þess að þessi leið var farin kostaði hún milljarða fyrir íslenska skattgreiðendur.“