„Engin vandræði með prófkjörið“

Frá kynningarfundi Pírata í Reykjavík.
Frá kynningarfundi Pírata í Reykjavík. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta eru engin vandræði með NV-prófkjörið. Við erum bara enn þá í prófkjörsferli við að klára röðun frambjóðenda á listann sem getur utan frá séð litið út sem vandræðagangur,“ segir Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri Pírata, þegar hann er spurður um vandræðin hjá flokknum í Norðvesturkjördæminu.

Frétt mbl.is: Píratar í NV-kjördæmi kjósa aftur

Endurröðun á prófkjörslista Pírata í Norðvesturkjördæmi hófst á miðnætti og mun standa fram á hádegi á miðvikudaginn. Ellefu frambjóðendur gefa áfram kost á sér á listann, en bæði Þórður Guðsteinn Pétursson sem kosinn var efstur á lista í prófkjörinu og Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir, kapteinn Pírata á Vestfjörðum, hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér við endurröðun á listanum.

„Eftir að listanum var hafnað ákváðu nokkrir frambjóðendur að halda ekki áfram. Allir píratar sem voru skráðir 30 dögum áður en prófkjörskosning hófst geta tekið þátt í endurröðunarkosningunni.“

Það er óvenjulegt að ekki aðeins fólk í kjördæminu getið kosið listann heldur allir píratar á landinu?

„Það er búið að fara fram prófkjör í kjördæminu og í því gátu allir skráðir píratar tekið þátt og boðið sig fram en kosningarétt höfðu þeir sem eru með lögheimili í kjördæminu og voru skráðir í flokkinn 30 dögum áður en prófkjörskosning hófst. Sá listi fór í staðfestingarkosningu og var hafnað. Þess vegna verður listanum endurraðað og allir geta kosið eins og ég nefndi hér að framan.“

Nú hefur sá sem sigraði prófkjörið, sem samkvæmt mínum upplýsingum vann það með undir 20 atkvæðum, verið sakaður um smölun. Hvernig er hægt að kalla það smölun ef manneskja biður systkini sín eða vini sína að kjósa sig?

„Það kom fram kæra til úrskurðarnefndar að loknu prófkjörinu þess efnis að einn frambjóðandi hefði fengið fólk til þess að skrá sig gagngert í flokkinn til þess að kjósa sig. Úrskurðarnefnd Pírata fékk málið til umfjöllunar og ályktaði að viðkomandi frambjóðandi hefði ekki brotið prófkjörsreglur NV eða lög Pírata en sendi jafnframt efnislega ályktun um að viðkomandi frambjóðandi hefði staðið fyrir smölun. Ég veit ekki hvers vegna kjósendur vildu ekki staðfesta listann, en hann fór í staðfestingarkosningu eins og prófkjörsreglur gerðu ráð fyrir og niðurstaðan var sú að Píratar höfnuðu að staðfesta listann. Það er bara lýðræðið í hnotskurn.“

Má ekki segja að það sé einmitt ekki lýðræðið í hnotskurn að prófkjör fari fram og svo hafni einhver samkunda niðurstöðum prófkjörsins?

„Það var engin samkunda sem kom saman til að hafna listanum, heldur gátu allir píratar kosið eins og ég nefndi áðan og niðurstaðan var sú að röðun listans var hafnað.“

 Fara þá allir listar í staðfestingarkosningu um allt land?

„Nei, hvert kjördæmisráð ákveður reglur um sín prófkjör. Píratar héldu sameiginlegt prófkjör fyrir höfuðborgarkjördæmin, þ.e. RN-, RS- og SV-kjördæmin og þeir listar fóru ekki í staðfestingarkosningu. Ástæðan fyrir því er sú að það voru svo margir sem gætu tekið þátt í þeirri kosningu. Bæði prófkjörslistar NA og Suður voru samþykktir í opinni staðfestingarkosningu.“

 Það er samt eitthvað skrýtið að sumir listar fari í staðfestingarkosningu en aðrir ekki?

„Mönnum getur fundist það skrýtið eða ekki. En flokkar hafa ýmsan hátt á því að velja á lista. Við erum að vanda okkur við að ná til grasrótarinnar í okkar starfi. Það var settur rammi um prófkjörið og fólk gekkst undir það að virða leikreglurnar. Ef Pírötum finnst einhver fara á skjön við reglurnar þá ber að virða það. Þetta beinist ekki endilega að þessum eina frambjóðanda. Það gæti verið að röðun listans hafi verið hafnað á öðrum forsendum. Kannski vildu kjósendur raða fólki á lista með dreifðari búsetu í huga. Ég veit ekki á hvaða forsendum röðun listans var hafnað. Listinn sem kom út úr prófkjörinu var bara eins og hann kom út, fínt fólk og mér fannst þetta flottur listi. En það var meirihluti þeirra sem tóku þátt í kosningunni sem töldu að það þyrfti að raða honum upp á nýtt og það er núna komið í framkvæmd sem lýkur á miðvikudaginn. Sá listi verður endanlegur auk uppfyllingar í neðri sæti listans.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert