Rannsókn ríkissaksóknara á lögreglumanni, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald á milli jóla og nýárs grunaður um óeðlileg samskipti við brotamenn, er lokið. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari við mbl.is. Ákvörðun um hvort ákært verði í málinu liggur þó ekki enn fyrir.
Er maðurinn grunaður um að hafa lekið upplýsingum og jafnvel þegið greiðslur fyrir. Maður um fertugt var einnig settur í gæsluvarðhald vegna málsins. Brotin sem lögreglumaðurinn er sakaður um varða eins til sex ára fangelsi. Hafi hann afhent upplýsingar gegn greiðslu gæti sá sem mútaði honum átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi. Maðurinn var starfandi fyrir fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.