„Það er staðreynd að það er mjög lágt hlutfall leikskólakennara í Reykjavík,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, en Reykjavíkurborg er á meðal sveitarfélaga á landsvísu sem uppfylla ekki lögbundið lágmark um fjölda leikskólakennara í leikskólum sínum.
Í lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um að 2/3 hlutar starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun þurfi að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.
„Það vantar um 1.300 leikskólakennara á landsvísu til að uppfylla lágmarkskröfuna um 2/3 hlutana — það er ekkert nýtt og hefur verið lengi,“ segir Haraldur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, en hann telur að niðurskurður síðustu ár til leikskóla hafi meðal annars áhrif á stöðuna í Reykjavík.