Lögreglan eykur eftirlit í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á Suðurlandi hefur aukið eftirlit sitt í Þorlákshöfn eftir að greint var frá því í gær að karlmaður hafi reynt að draga 9 ára dreng inn í bíl til sín. Átti atvikið sér stað inni í bænum, ekki langt frá grunnskóla bæjarins, og gat drengurinn gefið ágæta lýsingu af manninum.

Enn sem komið er hefur lögregla þó ekki fengið fleiri ábendingar um manninn og er málið enn nokkuð óljóst. Þetta staðfestir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá embættinu, í samtali við mbl.is.

Sveinn segir að tilkynning um málið hafi borist lögreglu um klukkan þrjú í gær. Drengurinn náði að koma sér undan manninum og lét vita af athæfi hans. Vísir greindi frá málinu, en þar segir meðal annars að talsverðar umræður hafi sprottið um það á Facebook-síðu íbúa bæjarins.

Sveinn segir aðspurður við mbl.is að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort lýst verði eftir manninum út frá lýsingum drengsins. Áfram verði fylgst vel með svæðinu, en eins og áður segir er málið nokkuð óljóst, meðal annars þar sem engin lýsing sé á bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert