Formaður samningarnefndar sveitarfélaganna, Inga Rún Ólafsdóttir, segir það mikil vonbrigði að kennarar hafi fellt nýgerðan kjarasamning.
„Við teljum okkur hafa gengið mjög langt í því að mæta kröfum félagsins, þess vegna kemur það á óvart að hann hafi verið felldur.“ Hún segist ekki geta svarað því hvað valdi óánægju kennara en ýmislegt hafi verið lagað frá síðasta samningi sem felldur var í júní.
Ólafur Loftson, formaður Félags grunnskólakennara, segir samninganefndina ekki hafa lagt samninginn fram nema af því að hún teldi að hann ætti möguleika. Samningurinn hafi verið lagfærður og þeir þættir sem mesta óánægjan var með frá síðasta samningi lagaðir og öðru bætt í. En að mati félagsmanna hafi það ekki verið nóg, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.