Fólk ræði við börn sín og sé á varðbergi

Lögregla hefur aukið eftirlit í Þorlákshöfn og er nú lögreglumaður …
Lögregla hefur aukið eftirlit í Þorlákshöfn og er nú lögreglumaður og lögreglubíll staðsettur á Þorlákshöfn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Engar ábendingar hafa borist lögreglu vegna karlmanns sem reyndi að draga 9 ára dreng inn í bíl til sín, þetta staðfestir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Selfossi, sem segir lögreglu líta málið alvarlegum augum.

Lögregla auglýsti í gær eftir manninum, sem drengurinn gat gefið nokkuð greinagóða lýsingu á. Er hann sagður vera á milli 30-40 ára gamall,  um 180 cm á hæð, þybbinn með snöggklippt ljósbrúnt hár, blá augu og með skegghýjung í kringum munninn. Hann hafi verið klæddur í svarta peysu með appelsínugulum stöfum með áletruninni ASA og í svörtum joggingbuxum og rauðum skóm.

Miklar umræður hafa skapast á Facebook síðu íbúa Þorlákshafnar um málið og hefur m.a. verið ýjað að því að þrjú sambærileg tilvik hafi komið upp í bænum undanfarið, þó lýsingin sé ekki nákvæmlega sú sama. Þorgrímur Óli segir engar slíkar tilkynningar hafa borist formlega til lögreglu sem rannsakar nú málið sem eitt stakt tilvik.

Ekki liggur fyrir á hvernig bíl maðurinn var, en lögregla hefur aukið eftirlit í bænum og verður lögreglumaður og lögreglubíll staðsettur á Þorlákshöfn eitthvað áfram að sögn Þorgríms Óla. „Það var rætt við fólk í nærliggjandi húsum, en það skilaði engu fyrir áframhaldandi rannsókn,“ segir hann og kveður lögreglu þurfa að fá nýjar ábendingar til að komast lengra með rannsóknina.

„Fyrst og fremst þarf fólk þó að ræða málin og vera á varðbergi. Það skiptir miklu máli hvernig börn bregðast við og drengurinn brást rétt við í þessu tilviki.“

Töluverður munur sé þó á þessu máli og öðrum þar sem reynt er að lokka börn inn í bíl. „Þarna er maðurinn að ráðast á drenginn, en ekki að narra hann inn í bíl og það getur verið erfitt að bregðast við slíku,“ segir Þorgrímur Óli. Í þessu tilfelli hafi maðurinn ráðist aftan að drengnum og náð taki á honum, sem síðan losnaði þegar strákurinn sparkaði í hann.

Lögregla eykur eftirlit í Þorlákshöfn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert