Gæti leitt til aukinna vanskila tekjulágra

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalag Íslands.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalag Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um fyrirkomulag námslána hér á landi í umsögn Öryrkjabandalags Íslands en frumvarpið er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og efturlitsnefnd Alþingis. 

Þannig sé ekki tekið nægjanlegt tillit til fatlaðs fólks og/eða örorkulífeyrisþega og þeirra sjónarmiða sem oft gilda um nám þeirra. Mikil áhersla sé lögð á námshraða. Bæta þurfi í frumvarpið ákvæðum þar sem tekið sé tillit til stöðu fatlaðs fólks og nauðsyn þess fyrir svigrúm til þess að klára nám á lengri tíma án þess að námsaðstoð skerðist.

ÖBÍ telur ennfremur þörf á meira svigrúmi þegar kemur að ákvæðum um að lántaki megi ekki vera í vanskilum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna fyrri námslána. Taka þurfi tillit til aðstæðna. Afnám tekjutengingar þegar kemur að endurgreiðslu lána sé líklegt til þess að leiða til aukinna vanskila hjá lágtekjufólki. Lögð er áhersla á að sértæk úrræði í þeim efnum.

Lagst er eindregið gegn því að sett verði hámark á heimild til að fresta endurgreiðslu og lagt til að áfram verði litið til aðstæðna einstaklinga hverju sinni. ÖBÍ vill að heimilt verði að fella niður námslánaskuld að hluta eða öllu leyti ef skuldari á við langvarandi veikindi, fötlun eða örorku að stríða. Slíkt sé þekkt á hinum Norðurlöndunum.

Þá telur ÖBÍ einkennilegt að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að meginreglan verði að námslán séu verðtryggð til 40 ára í ljósi þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að takmarka verðtryggingu lengri lána og jafnvel afnema verðtryggingu á lánum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert