Nýtir tímann í að stuðla að breytingum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, hefur gengið …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, hefur gengið til liðs við Viðreisn. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

„Ég tel Viðreisn vera frjálslynt afl og hef trú á því að það sé ákveðinn farvegur fyrir breytingar sem mig langar að ýta í gegn og berjast fyrir,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, sem tilkynnti um framboð sitt fyrir Viðreisn á Twitter-síðu sinni fyrir stundu.

Þar tekur hún einnig fram að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ætli að ganga til liðs við Viðreisn.

Frétt mbl.is - Þorgerður og Þorsteinn til liðs við Viðreisn

Farvegur fyrir frjálslynd öfl 

Í samtali við mbl.is segir Þorgerður Katrín Viðreisn vera farveg fyrir þær breytingar sem hana langi að berjast fyrir. „Hvort sem við erum að tala um jöfnun atkvæðisréttar, tala um að þjóðin fái að kjósa um framhald viðræðna, breytingar á bæði landbúnaðar- og sjávarútvegskerfinu og svo ég tali ekki um að það verði sameiginleg sátt um heilbrigðiskerfið og þær nauðsynlegu breytingar sem þurfa að vera þó svo að margt gott hafi verið gert á umliðnum misserum og árum,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að Viðreisn sé sá farvegur sem frjálslynd öfl geti fundið sig í.

Hún segir ákvörðunina hafa verið erfiða þar sem hún hafi bæði átt góða og erfiða tíma í Sjálfstæðisflokknum. „Svona ákvörðun er ekki tekin án mikillar yfirlegu en þegar öllu er á botninn hvolft þá er tíminn dýrmætur og maður reynir þá þegar maður fer aftur í pólitíkina að nýta tímann i að stuðla að breytingum, að þær gerist hraðar en gerst hefur á umliðnum árum.“

Spurð hvernig viðbrögðin hafa verið segir Þorgerður Katrín þau fín. „Ég hef fengið mikla hvatningu en eðlilega líka mikla gagnrýni, ég ætla ekkert að draga dul á það. En ég finn fyrir mun meiri hvatningu nú jafnvel heldur en þegar ég byrjaði í stjórnmálum á sínum tíma,“ segir Þorgerður Katrín að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert