Vilja innleiða umbætur á 4 árum

Meðallegutími á Landpítalanum er lengri en á háskólasjúkrahúsum í Svíþjóð. …
Meðallegutími á Landpítalanum er lengri en á háskólasjúkrahúsum í Svíþjóð. Þessu vilja skýrsluhöfundar breyta. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stytta þarf meðallengd innlagna, efla krafta sérfræðilækna í heilsugæslu og öldrunar- og endurhæfingaþjónustu, setja reglur um samræmda skráningu og innleiða nýtt fjármögnunarkerfi á næstu fjórum árum. Þetta er meðal þeirra tillagna sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company leggur til í skýrslu sem fyrirtækið vann fyrir velferðarráðuneytið í nánu samstarfi við fulltrúa ráðuneytisins, Embætti landlæknis og Landspítalann. 

„Þetta er pakki sem gefur okkur færi á að eiga samtal um stöðuna eins og hún er,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þegar skýrslan var kynnt. „Ég fagna því að vera búin að fá þetta í hendur,“ segir hann og kveðst telja skýrsluna geta veitt ákveðinn grunn til að kanna hvernig endurbæta megi kerfið.

Aðgerðir í sjö liðum

Skýrslan ber heitið Lykillinn að fullnýtingu tækifæra Landspítalans og eru þar lagðar til sjö aðgerðir sem miða að því að styrkja íslenskt heilbrigðiskerfi til framtíðar. Í skýrslunni er fullyrt að hægt sé að innleiða þessar umbætur að fullu innan fjögurra ára.

„Skýrt umboð stjórnvalda og vel skipulagt stjórnunarfyrirkomulag er forsenda þess að hrinda megi breytingunum í framkvæmd á árangursríkan hátt,“ segir í skýrslunni. Auk þess sem „veita þyrfti aðgerðunum skjól t.d. frá tíðum pólitískum inngripum.“ En í því skyni telja skýrsluhöfundar að hafa þurfi helstu hagsmunaaðila með í ráðum.

Aðgerðirnar sjö sem lagðar eru til eru:

Stytting meðallengdar innlagna, sem er talin ein birtingarmynda fjölda vandamála á Landspítalanum. Efling á kröftum sérfræðilækna í heilsugæslu og öldrunar- og endurhæfingarþjónustu, með því að tengja starfsemi Landspítalans betur við starfsemi annarra sem veita heilbrigðisþjónustu er einnig nefnd.

Þá er talað um meðvitaðar ákvarðanir byggðar á staðreyndum um skipulag einkastofa sérfræðilækna. Að því er segir í skýrslunni ættu einkastofur því aðeins að veita sérfræðilæknisþjónustu á þeim sviðum þar sem kostir þess eru augljósir. „Þetta á ekki við um allar sérgreinar því sjónarmið um lágmarksgæði og kostnaðarhagkvæmni leiða til þeirrar niðurstöðu að best sé að veita sumar tegundir sérfræðilæknisþjónustu einungis á háskólasjúkrahúsinu,“ segir í skýrslunni.

Setja þurfi þá reglur um samræmda skráningu og innleiða nýtt fjármögnunarkerfi og kanna fýsileika þess að koma  á sameiginlegu „lóðréttu“ stjórnskipulagi þar sem heilbrigðiskerfið væri þá t.d. endurskipulagt þannig að sameiginleg stjórnun verði á Landspítalanum, umdæmisspítölum, heilsugæslunni og öldrunarþjónustu.

Þá eigi að hagnýta upplýsingatækni eins og hægt er og beina nýjum fjárframlögum í þessar aðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert