Flokksþing Framsóknarflokksins mun fara fram helgina 1. og 2. október. Þetta var ákveðið á miðstjórnarfundi flokksins sem var haldinn á Akureyri í dag. Þetta staðfesti Eygló Harðardóttir, ritari Framsóknarflokksins og félagsmálaráðherra, í samtali við mbl.is.
Eygló segir að flokksþingið verði haldið á höfuðborgarsvæðinu, en greint verði frá nánari staðsetningu síðar.
„Meginþorri fundarmanna var sammála um að halda flokksþingið þennan dag,“ segir Eygló aðspurð. Kosið hafi verið á milli 1. og 2. október og 8. og 9. október. Fyrri tillagan var samþykkt, sem áður segir.
„Ég held að það sé alltaf gott þegar framsóknarmenn koma saman og við erum búin að vinna mjög vel á þessu kjörtímabili. Erum búin með stóran hluta af þeim málum sem við ætluðum okkur að klára, erum nokkur mál í þinginu sem við ætlum að klára fyrir kosningar. Þannig að ég held að það sé mjög gott að við komum saman og mótum stefnuna fyrir næsta kjörtímabil,“ segir Eygló aðspurð.
Ennfremur segir hún, að það hafi verið góðar og hreinskiptar umræður á fundinum í dag.
Uppfært kl. 21:08
Nánari upplýsingar um flokksþingið var birt á vef Framsóknarflokksins í kvöld. Þar segir í tilkynningu:
„Flokksþing framsóknarmanna ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans. Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.
Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett. Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.“