Píratar gagnrýna Birgittu

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Magnúsdóttir, sem sat í kjördæmisráði í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi, segir í bréfi sem hún sendi á fjölmiðla að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hafi hvatt frambjóðendur sem enduðu í efstu sætum prófkjörsins til að stíga til hliðar til þess að Gunnar Ingiberg Guðmundsson kæmist ofar á lista flokksins í kjördæminu.

Þá hafi hún hringt í fólk og hvatt það til þess að fella listann í staðfestingarkosningu flokksins og að síðustu haft samband við fólk og hvatt það til þess að velja Gunnar efstan á lista í endurteknu prófkjöri flokksins, en smölun er óheimil samkvæmt reglum flokksins. Birgitta segist ekki hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöður prófkjörsins.

Fleiri Píratar stigu fram í gær og höfðu svipaða sögu að segja. Gunnar endaði í fimmta sæti í prófkjörinu. Segir Lilja að þegar þeir sem urðu fyrir ofan hann í prófkjörinu hafi hafnað því að stíga til hliðar hafi Birgitta beitt sér fyrir því að lista flokksins yrði hafnað þegar hann var borinn undir Pírata á landsvísu.

Segir Lilja Birgittu meðal annars hafa vegið að persónu Þórðar Péturssonar, sem endaði í efsta sæti í upprunalega prófkjörinu, á leynilegri spjallsíðu flokksins. ,,Símhringingar, tölvupóstar og fundir þess efnis um að fólk myndi færa sig neðar á lista til að koma Gunnari Ingiberg ofar báru ekki árangur. Þingmaður flokksins, Birgitta Jónsdóttir, fór hamförum á leynilegri síðu flokksins þar sem hún sagðist þekkja mann og annan í heimabæ Þórðar Péturssonar, efsta manns á lista, sem gætu sagt sér hitt og þetta um manninn,“ segir Lilja og birtir skjáskot með ummælum Birgittu máli sínu til stuðnings.

Taka í svipaðan streng

Fleiri Píratar úr Norðvesturkjördæmi stigu fram í gær og sögðu að Birgitta og fólk henni tengt hefði hvatt frambjóðendur til að stíga til hliðar. Þeirra á meðal er Hafsteinn Sverrisson, fyrrverandi varaformaður Pírata í kjördæminu, sem var í þriðja sæti í prófkjörinu eftir endurútreikninga í kjölfar þess að Halldóra Ásgeirsdóttir steig til hliðar. Var hann einnig hvattur til þess að víkja fyrir Gunnari.

Þá sagði Ágúst Beaumont, ritari Pírata á Vesturlandi, sem átti sæti í kjördæmisráði Norðvesturkjördæmis, í samtali við RÚV að Birgitta hefði haft samband við sig og reynt að hafa áhrif á uppröðun á lista flokksins í kjördæminu, eftir að fyrri kosning lá fyrir

Gunnar fékk mun betri kosningu í endurteknu prófkjöri og endaði í 2. sæti. Var honum raðað 86 sinnum í efsta sæti á listanum en sigurvegaranum Evu Pandoru Baldursdóttur 46 sinnum. Henni var hins vegar raðað oftar fyrir ofan hann og hún vann því samkvæmt kosningakerfi Pírata.

Neitar ásökunum

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagðist Birgitta hafna öllum ásökunum um að hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu prófkjörsins. „Ég hringdi ekki í eina einustu manneskju til þess að biðja hana um að fella listann,“ sagði Birgitta. „Ég hef ekki tekið upp símann og beðið neinn um að kjósa á einn eða neinn hátt.“

Frétt mbl.is: Sökuð um að reyna að koma Gunnari á lista

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka