Bera Steingrím þungum sökum

Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, er sakaður um að hafa án lagaheimildar sem fjármálaráðherra tekið yfir verkefni Fjármálaeftirlitsins við endurreisn bankakerfisins og gengið til samninga við kröfuhafa í stað þess að fylgja neyðarlögunum. Afleiðingar þess voru að ríkið tók á sig alla áhættu af rekstri bankanna en fékk þó aðeins hluta af ágóðanum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar sem kynnt var í dag.

Frétt mbl.is: Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum

Segir þar að ráðuneyti Steingríms meðan hann var fjármálaráðherra hafi gengið til samninga við kröfuhafana með þeim hætti að ef illa gengi hefði tapið lent á ríkissjóði, en þótt ríkið tæki áhættuna þá kom eignarhlutur í Arion banka og Íslandsbanka að stærstum hluta ekki í hlut ríkisins.

„Útkoma þessara samninga var sú að kröfuhafar eignuðust tvo bankanna nánast að fullu án þess að leggja fram eðlilegt fjármagn af sinni hálfu. Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir almennings. Um leið afsöluðu þeir meira og minna mögulegum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð sem það tók á sig frá hruni bankanna,“ segir í skýrslunni.

Þá er vísað til þess að ein helsta röksemd Steingríms fyrir því að falla frá fyrirhugaðri yfirtöku ríkisins á bönkunum þremur hafi verið að þá hafi áhættan fyrir ríkissjóð orðið of mikil. „Þær upplýsingar sem hér koma fram sýna þvert á móti að ríkissjóður tók þessa áhættu á sig í raun og veru, en eignaðist aðeins einn bankann af þremur í stað þess að eignast þá alla. Arion banki og Íslandsbanki, sem komu í hlut kröfuhafanna, hafa skilað 288 milljarða króna hagnaði á þessum tíma sem um ræðir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert