Langt seilst til að friða kröfuhafa

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, …
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, á fundinum með fjölmiðlum í dag þar sem skýrslan var kynnt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti fjárlaganefndar segir að útgangspunktur íslensku samninganefndar ríkisins í viðræðum við kröfuhafa föllnu bankana hafi verið að „gefa sér fyrirfram að neyðarlögin myndu ekki halda fyrir dómstólum“ og hafi því verið gengið mjög langt í að „friða kröfuhafa gömlu bankanna“. Ríkisstjórnin hafi óttast að neyðarlögin myndu ekki halda og notað það sem réttlætingu á gjörðum sínum.

Þetta kemur fram í skýrslu meirihlutans um „seinni einkavæðingu bankanna“, þ.e. þá sem átti sér stað eftir fjármálahrunið. Í skýrslunni er m.a. vísað til fundargerðar stýrinefndar ríkisstjórnarinnar og Hawkpoint frá 20. mars 2009.

„Hr. [Guðmundur] Árnason sagði það mikilvægt að viðhalda öguðum viðræðum við kröfuhafana. Það þyrfti að vera sameiginlegur skilningur hver væri bær til að tala við hvern. Hann sagði það mikilvægt að trufla ekki samband skilanefndanna og kröfuhafanna. Ríkið vill friðþægja kröfuhafa eins og mögulegt er,“ kemur t.a.m. fram í skýrslunni, en textinn er þýðing á yfirliti Guðmundar Árnasonar eftir fyrsta fund stýrinefndarinnar.

Í samtali við mbl.is segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, að síðasta ríkisstjórn hafi látið spila með sig af ótta við málsókn á grunni neyðarlaganna. Hún segir að við lestur fundargerða og þeirra skjala sem lágu til grundvallar skýrslunni hafi það verið gegnumgangandi að réttlætingin á gjörðum ríkisstjórnarinnar væri ótti við að neyðarlögin myndu ekki halda.

Hún segir að ríkisstjórnin hefði átt að svara kröfuhöfunum með sama hætti og var gert með Icesave-samningana. „Ég og fleiri þingmenn vorum á því að Icesave-samningarnir væru ólögvarin krafa. Á sama grunni hefði átt að svara hótunum kröfuhafa um málsókn. Segja gjörið svo vel og farið í mál við ríkið í stað þess að leggjast á grúfu og gera það sem beðið var um,“ segir Vigdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert