Mismunurinn fer í matarundirbúninginn

Leikskólastjórnendur hafa 306 kr. á dag til matarkaupa fyrir hvert …
Leikskólastjórnendur hafa 306 kr. á dag til matarkaupa fyrir hvert barn. mbl.is/Eva Björk

Ekki er rétt að skólastjórnendur leikskóla í Reykjavík hafi 280 krónur til að ráðstafa í matarinnkaup fyrir hvert barn. Rétt upphæð er 306 kr. þar sem heildarupphæðin á að dreifast á ellefu mánuði en ekki tólf, að því er Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs, sagði í samtali við mbl.is. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er röngu upphæðina og skekkjuna að rekja til borgarinnar.

Dagný Gísla­dótt­ir, leik­skóla­kenn­ari á leik­skól­an­um Bakka, vakti í Facebook-færslu um helgina at­hygli á því að stjórn­end­ur leik­skóla í Reykja­vík hefðu 280 krón­ur á dag til að ráðstafa í mat­ar­inn­kaup fyr­ir hvert barn en gjald­skrá leik­skól­anna gerði ráð fyr­ir að for­eldr­ar borguðu um 384 krón­ur á dag í mat­ar­kaup fyr­ir börn sín.

„Maður get­ur ekki annað en velt fyr­ir sér hvert mis­mun­ur­inn fari,“ sagði Dagný í samtali við mbl.is.

„Það er ekki nóg að kaupa inn hráefnið“

Skúli segir 78 króna mismuninn á kostnaði foreldra og þeirra fjármuna sem leikskólastjórnendum væru ætlaðir í matarinnkaup fyrir hvert barn fara í að borga hluta kostnaðar við að búa matinn til.

„Þetta er starfsmannakostnaður fyrst og fremst og svo annar kostnaður sem tengist mötuneytunum eins og áhöld, tæki, viðhald og svo orkukostnaður í mötuneytunum,“ segir hann. „Það er skýringin, því það er ekki nóg að kaupa inn hráefnið, það þarf að búa til matinn líka.“

Skúli segir þetta fyrirkomulag hafa verið viðhaft um árabil. „Þannig að stjórnendur eiga að vita hvernig þetta er samansett,“ segir hann.

Rétti tíminn til að snúa vörn í sókn

Mikið hefur verið rætt um niðurskurð í skólum og leikskólum undanfarið, m.a. í matarmálum barnanna, og hafa bæði stjórnendur og kennarar tjáð sig um að ekki verði gengið lengra.

„Við erum alveg sammála því að þetta sé eitt af þeim sviðum þar sem við viljum bæta í,“ segir Skúli. „Við teljum að það sé tilefni til þess og erum raunar að vinna tillögur bæði í leikskólum og grunnskólum sem eru mjög langt komnar og munu m.a. tengjast þessum matarmálum,“ segir hann og kveðst reikna með að þeirri vinnu ljúki fyrir mánaðamót.

„Við erum að komast fyrir vind í rekstri borgarinnar. Við fengum jákvæða niðurstöðu úr sex mánaða uppgjöri og spár fyrir tekjur á næstunni eru jákvæðari og þá er rétti tímapunkturinn að snúa vörn í sókn.“

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir unnið að tillögum …
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir unnið að tillögum sem m.a. tengjast matarmálum skóla og leikskóla. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert