Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sveik fyrst og fremst sjálfan sig þegar hann upplýsti ekki um aflandseignir eiginkonu sinnar. Þetta segir Sveinbjörn Eyjólfsson, sem hyggst bjóða sig fram til formanns gegn Sigmundi að óbreyttu. Hann segir mikinn þrýsting á Sigurði Ingi Jóhannssyni um að fara fram.
Sveinbjörn er forstöðumaður Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands. Hann segir markmiðið með framboði sínu fyrst og fremst að knýja fram endurnýjun umboðs forystu Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar í haust.
Að sögn Sveinbjörns eru samvinnu- og félagshyggjumenn innan Framsóknarflokksins þeirrar skoðunnar að atburðir liðins árs hafa rýrt trúverðugleika flokksins, og þá einna helst formannsins, og að breytinga sé þörf. Sú forysta sem leiðir flokkinn í kosningunum verði að hafa stuðning grasrótarinnar.
Sveinbjörn hefur sagt að hann muni víkja ef kandídat á borð við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra stigur fram og tekur slaginn við núverandi formann.
„Það er auðvitað þrýstingur á Sigurð,“ segir Sveinbjörn í samtali við mbl.is. „Sigurður hefur ákveðnar skyldur gagnvart sínum flokksfélögum þegar hann verður fyrir þeim þrýstingi sem nú er; að hugsa það rækilega hvort hann verður ekki að taka þá ábyrgð og þann slag sem farið er fram á að hann geri.“
Sveinbjörn segir öruggt að hinn þrýstingurinn sé einnig til staðar, að Sigurður bjóði sig ekki fram.
„Því þarna eru menn að velta fyrir sér „sátt og samlyndi“ en það er bara ekki sátt og samlyndi. Það er stórum hóp flokksmanna sem er mjög brugðið og sem telja að Sigmundur hafi svikið fyrst og fremst sjálfan sig og þann trúverðugleika sem hann stóð fyrir í baráttunni við fjármálaöfl heimsins.“
Styrinn um formennsku Sigmundar Davíðs má rekja til uppljóstrana þess efnis að eiginkona forsætisráðherrans fyrrverandi ætti eignir í skattaskjólum, og ef til vill ekki síður til viðbragða ráðherrans þáverandi.
Sveinbjörn segir Sigmund hafa tapað trausti og þá hafi hann ekki sýnt iðrun.
„Ég hef engar hugmyndir um að Sigmundur sé svikari eða hafi ekki gefið neitt upp, eða þau hjónin. Það hins vegar að halda þessu leyndu og að þetta skyldi ekki hafa verið öllum kunnugt, og að þurfa að draga þetta fram í dagsljósið með þeim hætti sem þarna gerðist og með þeim viðbrögðum sem öllum heiminum eru ljós; þá brast eitthvað,“ segir Sveinbjörn.
„Og það hefur ekki tekist að berja í þá bresti ennþá og þá, að minnsta kosti, verður að endurnýja umboð Sigmundar með mjög skýrum hætti innan flokksins, til að menn geti sæst á það.“
Sigmundur kom fram í Sprengisandi á Bylgjunni í síðustu viku og sagðist aldrei hafa upplifað jafn mikinn stuðning og nú. Sveinbjörn segist vona að þetta sér rétt, en hann hafi sínar efasemdir.
„En þá drögum við það bara fram,“ segir hann. „Þá kemur það bara fram í þessum kosningum með skýrum hætti. Og það er fín niðurstaða, sjáðu. En hún liggur ekki á borðinu núna. Maður hefur efasemdir um að þessi mikli stuðningur sem hann talar um sé þarna til staðar. En núna drögum við hann þá fram.“
Sveinbjörn segir að Sigmundur hefði átt að sýna iðrun, þar sem ljóst var að landsmönnum og stórum hluta Framsóknarmanna var brugðið þegar Panama-skjölin svokölluðu voru dreginn fram í dagsljósið, og ekki síst vegna þess hvernig málum vatt fram.
„Sigmundur hefur fyrst og fremst, að minnsta kosti í seinni tíð, haft orð á því í þessu samhengi að þarna hafi verið reynt að koma höggi á hann, og Framsóknarflokkinn í gegnum hann, með mjög lymskulegum hætti. Vandamálið er að það tókst,“ segir Sveinbjörn.
Sjálfur segist hann hafa misst traustið á formanninum þar sem sá málflutningur sem hann hafði uppi, um baráttuna gegn peningaöflunum, um að ganga í málin og gera hreint fyrir dyrum, passaði ekki við það sem síðar kom á daginn.
„Þá einhvern veginn fannst mér það ekki passa inn í þá mynd þegar það kemur í ljós að hann, eða konan hans, hafði valið þann kost að geyma peningana sína í útlöndum og sérstaklega á Tortóla. Það er ekkert ljótt að eiga peninga en þá áttu menn bara að segja frá því í upphafi: við eigum dálítið af peningum, við höfum ákveðið að geyma þá í þessu efnahagsumhverfi og ekki taka þátt í efnahagsumhverfinu hér, útaf einhverjum þeim ástæðum sem þau gátu haft fyrir því, en ekki láta þetta koma upp með þessum hætti.
Það er alltaf þannig að ef þú gerir ekki hreint fyrir þínum dyrum, ef það liggur ekki allt á borðinu, þá getur verið auðvelt að gera þig tortryggilegan. Og það tókst.“
Spurður að því hvort hann telji flokksmenn fyrst og fremst ósátta vegna þess að Sigmundur greindi ekki frá eignunum eða vegna þess að hann baðst ekki afsökunar, segist Sveinbjörn aðeins getað svarað fyrir sjálfan sig.
„Það verður engin svona uppákoma, það getur enginn dregið menn í þennan dilk, nema það sé einhver ástæða til þess og hún var til staðar. Því miður. Þarna voru ákveðnir hlutir sem enginn vissi af og sé þetta hans skoðun að í gegnum hann hafi átt að ná sér niður á honum og Framsóknarflokknum, verður hann líka að gera sér grein fyrir að það tókst. Vegna þess að hann gaf ekki upp, eða að minnsta kosti ræddi ekki um það með hvaða hætti þessir fjármunir væru geymdir, og brást vægast sagt einkennilega við þegar hann er leiddur í þessa gildru, eins og hann talar um.
Á þeirri stundu hverfur trúverðugleikinn og hann hefur á engan hátt komið til baka með þeim hætti að menn eins og til dæmis ég getum verið sáttir. Það á eftir að gerast. Hann hefur til að mynda talað um að nú muni hann taka góðan tíma í að fara um landið og hitta flokksmenn, hafi til þess tíma þar sem hann er ekki í ríkisstjórn, en hann hefur ekki sést hér á Vesturlandi svo ég viti til.“
Sveinbjörn segir Sigmund eiga mikla vinnu fyrir höndum ætli hann að ná þeim árangri sem stefnt sá að á flokksþingi sem fram fer 1. og 2. október.
En fari svo að Sigurður Ingi fer ekki fram gegn sitjandi formanni, né annar frambærilegur kandídat, er Sveinbjörn reiðubúinn til þess að setjast á formannsstólinn?
„Það er nú dálítill tími í að það muni gerast en ég tek að sjálfsögðu þá ábyrgð sem mér er falin í flokknum. Hef alltaf gert það og mun halda því áfram. Ég reyndar sé þetta ekki alveg gerast með þessum hætti en verði það þá er það bara svoleiðis,“ segir hann. „Ég hlakka til allra verkefna sem Framsóknarflokkurinn felur mér.“