Lögbannið „gagnslaust og skaðlegt“

Deildu.net var ein þeirra síðna sem fjarskiptafyrirtækjum var bannað að …
Deildu.net var ein þeirra síðna sem fjarskiptafyrirtækjum var bannað að veita aðgang að.

Gagnslaust, skaðlegt og ósanngjarnt er að þvinga fjarskiptafyrirtæki til meina viðskiptavinum sínum um aðgang að tilteknum vefsíðum, að mati Jens Péturs Jensen framkvæmdastjóra Internets á Íslandi (ISNIC) sem sér um skráningu íslenskra léna á netinu. Í pistli á vefsíðu ISNIC gagnrýnir hann lögbann á skráaskiptisíður sem sett var í fyrra.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti lögbannskröfu sem bannaði íslenskum fjarskiptafyrirtækjum að veita viðskiptavinum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.iceland.pm, www.icetracker.org, www.afghanpirate.com, www.deildu.eu, www.thepiratebay.se, www.thepiratebay.sx og trepiratebay.org.

Í grein sinni á vefsíðu ISNIC skrifar Jens Pétur að gagnslaust, skaðlegt og ósanngjarnt sé er að þvinga fjarskiptafyrirtæki til að útiloka heimilisföng (e. DNS blocking) í efsta lagi burðarvirkis Internetsins, þ.e.a.s. í nafnakerfinu (e. DNS-system) sem allir netþjónustuaðilar starfi í. Þessi aðferð nefnist DNS-fölsun.

Eins og að banna símanúmer eða heimilisföng

Hann bendir á að aðferðin sem notuð er til að framfylgja lögbanninu, að falsa svör við fyrirspurnum um lén og afvegaleiða netnotendur, sé stórt alþjóðlegt vandamál. Misvitur stjórnvöld beiti þeirri aðferð, meðal annars í ritskoðunartilgangi.

„Með lögbanninu hefur Sýslumaðurinn í Reykjavík hins vegar fyrirskipað tilgreindum innlendum fjarskiptafyrirtækjum (sem skulu vera hlutlaus og vinna samkvæmt viðurkenndum internetstöðlum) að brjóta eitt af grunnkerfum netsins (DNS kerfið). Með þessum aðgerðum er fótunum kippt undan þróun undanfarinna ára sem stuðlar að auknu öryggi í nafnakerfi netsins,“ skrifar Jens Pétur.

Eins telur hann að bannið óréttmæt því það beinist að hlutlausum og saklausum aðilum. Fjarskiptafyrirtæki veiti ekki aðgang að tilteknum vefsíðum á netinu heldur aðeins aðgang að alnetinu sem slíku. Það sé á ábyrgð netnotendanna sjálfra hvernig þeir noti netið líkt og það sé á ábyrgð þeirra sem kaupa rafmagn og vatn af slíkum veitum hvernig þeir nota það.

„Nærtækari samanburður væri t.d. við símanúmer, eða húsnúmer og heimilisfang. Hverjum dytti í hug að banna ákveðin símanúmer, götuheiti, eða húsnúmer með lögbanni vegna þeirrar starfsemi sem þar fer fram?“ spyr framkvæmdastjóri ISNIC.

Ætti að beinast að eigendum og notendum

Þá fullyrðir Jens Pétur að lögbannið sé tilgangslaust og geti tæknilega séð ekki náð markmiði sínu nema að takmörkuðu leyti því það beinist að röngum aðila efst í DNS-kerfinu.

„Notendur fletta viðkomandi lénum einfaldlega upp í gegnum aðrar leiðir (því lénin eru áfram til) og aðra þjónustuaðila, t.d. með því að nota einhvern hinna fjölmörgu opnu nafnaþjóna (e. Open DNS) sem finna má víða á netinu og sem vitað er að stunda ekki DNS fölsun,“ segir hann.

DNS-fölsunin geti einnig skaðað umferðarstýringu netsins sem hefur þann tilgang að minnka biðtíma eftir gögnum og lágmarka kostnað. Grípi notendur innlends fjarskiptafyrirtækis til þess þjóns að nota nafnaþjóna úti í heimi til að komast í kringum lögbannið fer gagnaflutningur þeirra um útlönd í stað þess að fara um gagnaþjóna fyrir Ísland. Þetta hægi á gagnaflutningum fyrir alla notendur og geri þá dýrari.

Jens Pétur telur að beina hefði átt lögbanninu til eigenda ólöglegu vefsíðnanna annars vegar og hins vegar til þeirra sem sóttu ólöglegt efni og notuðu það.

„Enn betra væri að í stað lögbanns og tilheyrandi þvingunaraðgerða kæmu fyrirmæli um að fjarskiptafyrirtæki framsendi kvartanir sem þeim berast um „ólöglega“ dreifingu efnis til notenda sinna, en slíkar aðgerðir má gera sjálfvirkar, þær kosta lítið en bera meiri árangur. Þeir sem nota og dreifa slíku efni án leyfis láta af slíkri háttsemi þegar í ljós kemur að fulltrúar eigenda efnisins geta náð sambandi við þá þótt óbeint sé. ISNIC notar hliðstæðar aðferðir þegar kvartað er yfir rangri lénaskráningu, sem aftur kemur í veg fyrir að hægt sé að ná sambandi við rétthafa léns,“ skrifar Jens Pétur.

Pistill framkvæmdastjóra ISNIC um lögbannið

Lögbannið beindist að fjarskiptafyrirtækjum frekar en eigendum eða notendum vefsíðnanna …
Lögbannið beindist að fjarskiptafyrirtækjum frekar en eigendum eða notendum vefsíðnanna sem taldar eru brotlegar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert